Innlent

Embætti landlæknis hvetur fólk til að takmarka neyslu á unnum kjötvörum

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Skýrsla WHO leiðir í ljós að neysla á unnum kjötvörum eykur líkur á krabbameini.
Skýrsla WHO leiðir í ljós að neysla á unnum kjötvörum eykur líkur á krabbameini. vísir/epa
Embætti landlæknis segir mikilvægt að fólk takmarki sérstaklega neyslu á unnum kjötvörum og á rauðu kjöti. Ný rannsókn Alþjóðaheilbrigðisstofnunar (WHO) hefur leitt í ljós að  kjötvörur, líkt og pylsur, beikon og skinka, séu krabbameinsvaldandi.

Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnastjóri næringar hjá embættinu, segir að í byrjun árs hafi Embætti landlæknis birt nýjar ráðleggingar um mataræði þar sem  fólki er ráðlagt að takmarka neyslu á unnum kjötvörum. Rannsókn WHO hafi staðfest það sem áður hafi verið birt af World Cancer Research Fund (WCRF), en að nú hafi rautt kjöt og unnar kjötvörur verið flokkað eftir krabbameinsáhættu. 

„Við mælum með að takmarka neyslu á  rauðu kjöti við 500 grömm á viku og takmarka sérstaklega neyslu á unnum kjötvörum en það samsvarar um tveimur til þremur kjötmáltíðum á viku, og smávegis kjötáleggi. Með unnum kjötvörum er oftast átt við kjöt sem er reykt, saltað eða rotvarið og þar má sem dæmi nefna saltkjöt, spægipylsu, hangikjöt, skinku og þess háttar.“

Stofnunin tók saman niðurstöður úr yfir 800 rannsóknum og hefur nú sett unnar kjötvörur í sama flokk og tóbak, asbest og dísilgufu. „Áhætta við að borða unnar kjötvörur er samt sem áður mun minni en að reykja, þrátt fyrir að þetta sé núna í sama flokki,“ útskýrir Hólmfríður.

Þá segir hún að í nýjum ráðleggingum Embættis landlæknis sé lögð meiri áhersla en áður á mataræði í heild sinni og á fæði úr jurtaríkinu, til dæmis á grænmeti, ávexti, heilkornavörur, baunir, linsur, hnetur og fræ.

Niðurstaða skýrslu WHO er sú að fimmtíu grömm af unnum kjötvörum á dag auki líkur á krabbameini og ristli í endaþarmi um átján prósent. Þá sé rautt kjöt líklega einnig krabbameinsvaldandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×