Gunnar var kynntur til leiks á fréttamannafundi FH í Kaplakrika, en hann yfirgaf Stjörnuna í byrjun vikunnar. Hann sagðist þó hafa áhuga á að spila áfram á Íslandi.
Gunnar samdi við þáverandi Íslandsmeistara Stjörnunnar fyrir síðasta tímabil og spilaði 20 af 22 leikjum liðsins.
Hann fékk á sig 23 mörk en hélt hreinu í sex leikjum, þar af þremur af síðustu fjórum leikjum Stjörnunnar þegar liðið fór á skrið undir lok tímabilsins og hafnaði að lokum í fjórða sæti.
Eftir tímabilið var Færeyingurinn kosinn besti leikmaður Stjörnunnar af leikmönnum liðsins og stjórn.

Gunnar kom til Stjörnunnar frá Motherwell í Skotlandi, en hann fór 2009 til Manchester City og spilaði einn leik í ensku úrvalsdeildinni þegar hann kom inná á móti Arsenal.
Hann hefur verið aðalmarkvörður færeyska landsliðsins síðustu fimm ár, en Gunnar stóð vaktina í öllum leikjum Færeyja í undankeppni EM 2016.
Þar fékk hann á sig 17 mörk í 10 leikjum, en hélt tvívegis hreinu gegn Grikklandi í fræknum sigurleikjum færeyska landsliðsins.
Gunnar Nielsen kemur til með að leysa Róbert Örn Óskarsson af hólmi í marki FH-liðsins. Róbert hefur varið mark FH undanfarin tvö ár og varð Íslandsmeistari með liðinu í sumar.
Gunnar er annar leikmaðurinn sem kemur til FH eftir tímabilið, en áður voru Íslandsmeistararnir búnir að semja við Bergsvein Ólafsson, miðvörð Fjölnis.