Körfubolti

Shaw rekinn frá Denver

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brian Shaw var oft niðurlútur á bekknum meðan hann stýrði Denver.
Brian Shaw var oft niðurlútur á bekknum meðan hann stýrði Denver. vísir/getty
Brian Shaw hefur verið sagt upp störfum sem þjálfara bandaríska NBA-liðsins Denver Nuggets.

Shaw - sem lék í 15 ár í NBA, m.a. með Orlando Magic og Los Angeles Lakers - starfaði sem aðstoðarþjálfari í átta ár áður en hann fékk þjálfarastarfið hjá Denver 2013. Shaw entist hins vegar ekki lengi í sínu fyrsta þjálfarastarfi.

Melvin Hunt, sem var aðstoðarþjálfari Shaws, mun stýra Denver út tímabilið en liðið er í þriðja neðsta sæti Vesturdeildarinnar, með aðeins 35% vinningshlutfall, og hefur tapað átta af síðustu tíu leikjum sínum.

Shaw tók við Denver-liðinu af George Karl eftir tímabilið 2012-13, þar sem Denver vann 57 leiki og endaði í 3. sæti Vesturdeildarinnar.

Shaw tókst ekki að fylgja þeim árangri eftir en Denver vann aðeins 36 leiki á síðasta tímabili og missti af sæti í úrslitakeppninni í fyrsta sinn frá árinu 2003.

Denver byrjar vel undir stjórn Hunts en í nótt vann liðið Milwaukee Bucks á heimavelli, 106-95, en þar á undan hafði Denver tapað tíu heimaleikjum í röð.

Dario Gallinari skoraði 26 stig fyrir Denver í nótt og Kenneth Faried var með 14 stig og 14 fráköst.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×