Innlent

Krónutöluhækkun ráðherra sögð ófær

fanney birna jónsdóttir skrifar
Forsætisráðherra segir krónutöluhækkanir skynsamlega nálgun í kjaraviðræðum. Fjármálaráðherra hefur boðað aðrar leiðir. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir óeiningu um krónutöluhækkanir meðal verkalýðshreyfingarinnar.
Forsætisráðherra segir krónutöluhækkanir skynsamlega nálgun í kjaraviðræðum. Fjármálaráðherra hefur boðað aðrar leiðir. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir óeiningu um krónutöluhækkanir meðal verkalýðshreyfingarinnar.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði á Alþingi í gær að mikilvægt væri að koma til móts við fólk með lægri tekjur og millitekjur og það væri jafnvel best gert með krónutöluhækkunum. Slíkar hækkanir hefðu oft og tíðum reynst vel. Sigmundur ítrekaði í ræðu sinni í óundirbúnum fyrirspurnartíma að hann teldi krónutöluhækkanir skynsamlega nálgun í þeim kjarasamningum sem í hönd fara.

Svo virðist sem forsætisráðherra og fjármálaráðherra greini á um málið, miðað við orð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í þinginu 5. febrúar síðastliðinn þegar hann sagði miklar nafnlaunahækkanir hafa tilhneigingu til að enda í verðbólgu. Endi kjaraviðræður nú með þeim hætti munum við „fara eina byltu enn. Úr því kemur engin kaupmáttaraukning,“ sagði Bjarni.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir enga sátt um krónutöluhækkanir hjá verkalýðsfélögunum. „Áherslur verkalýðsfélaga hvað krónutöluleiðina varðar hafa verið mjög ólíkar.“

Þorsteinn segir að í kröfugerðum bæði Flóabandalagsins og Starfsgreinasambandsins felist ákveðin krafa um prósentuhækkanir þrátt fyrir að þær séu settar fram sem krónutöluhækkanir. „Síðan getum við horft til opinbera umhverfisins, kröfugerða lækna og fleiri stétta sem fóru fram með mjög ríka áherslu á prósentuhækkanir. Það er ekkert hægt að framkvæma krónutöluhækkun ef ekki er sátt um það milli allra hópa á vinnumarkaði,“ segir Þorsteinn og bætir við að Samtök atvinnulífsins telji þá leið ekki færa.

Um áherslumun talsmanna ríkisstjórnarflokkanna segir Þorsteinn að aðalmálið sé að þeir þingmenn, sem tjá sig um kjaramál, hafi það í huga að brýnast sé að ná raunverulegri kaupmáttaraukningu. Ekki megi hverfa aftur til tíma óðaverðbólgu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×