Innlent

Aukið eftirlit með heimagistingum á borð við Airbnb

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Skattayfirvöld hafa þurft að bregðast hratt við auknum vinsældum leigusíðna á borð við AirBnb. Eftirlit með þeim hefur verið hert í samvinnu við lögreglu og eru hundruð mála nú til skoðunar hjá ríkisskattstjóra. Þó hefur reynst erfitt að fylgjast með viðskiptum sem fara fram á síðunum.

„Við höfum fylgst vel með þessu. Eins og þetta er sett upp í dag að þegar er farið inn á þessar síður þá er ekki hægt að fá upplýsingar um hverjir eru seljendur og hvaða eignir er verið að leigja út. Þannig að það gerir þetta eftirlit flóknara,“ segir Sigurður Jensson, forstöðumaður eftirlitssviðs ríkisskattstjóra.

„Við höfum reynt að fara aðrar leiðir í þessu og gerum það með þeim hætti að við höfum skoðað greiðslur erlendis frá inn á íslenska bankareikninga. Þannig er farið í frávikagreiningu og þá uppgötvað misferli í skattskilum,“ bætir hann við.

Sigurður segir mál sem varði greiðslur erlendis frá skipta hundruðum. Þó sé erfitt að segja til um nákvæman fjölda greiðslur vegna leigusíðna. „En þetta er umtalsvert,“ segir hann.

Hátt í tvö þúsund íbúðir eru á lista yfir heimagistingar Airbnb, en þar leigja einstaklingar út eigin íbúð til ferðamanna sem koma hingað til lands. Sækja þarf um, og greiða fyrir sérstakt rekstrarleyfi til sýslumanns, áður en rekstur hefst og starfsleyfi til heilbrigðiseftirlitsins. Fjölmörg dæmi eru þó um að það sé ekki gert, en slíkur rekstur drýgir tekjur leigusala umtalsvert. Leiguverð á íbúðum er afar misjafnt eða allt frá nokkrum þúsund krónum upp í tugi þúsund króna fyrir glæsilegar íbúðir í hjarta Reykjavíkur.

Á síðasta ári var fimm gistiheimilum lokað þar sem rekstrarleyfi voru ekki fyrir hendi. Engum hefur verið lokað á þessu ári, en nokkur lokunartilmæli hafa verið gefin út, að sögn Sigurðar.


Tengdar fréttir

Leigir þessi af þér á Airbnb?

Endurgerð auglýsingar minnir alla á að ýmsar hættur geta fylgt því að leigja íbúðina sína til ókunnugra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×