Innlent

Fimm ár frá upphafi eldgossins í Eyjafjallajökli

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Eldgosið í Eyjafjallajökli gerði Ísland frægt og nú kannast allir við Ísland hvar sem maður kemur. Þetta segir prófessor í jarðeðlisfræði en fimm ár eru í dag frá því að eldgosið hófst.

Þennan sama dag fyrir fimm árum tók Eyjafjallajökull að gjósa. Gossprungan var um tveggja kílómetra löng og strax mátti sjá mikla gosbólstra teygja sig upp í loft. 

„Þetta var náttúrulega atburður sem snerti mjög marga og kom víða við í heiminum og gerði Íslands frægt eins og enginn annar atburður í sögunni. Þannig að nú kannast allir við Ísland hvar sem maður kemur,“ segir Páll Einarsson prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

Páll segir átján ára aðdraganda hafa verið að gosinu. Í mars 2010 gaus á Fimmvörðuhálsi en það gos hleypti gosinu í Eyjafjallajökli af stað. 

„Þessi lexía er mjög þýðingarmikil því að þetta var svona, og er enn þá, einhver besta staðfesting á þessu sem að menn hafði lengi grunað: Að gos af þessu tagi væri hleypt af stað af heitri kviku sem kæmi beint neðan úr möttlinum. Þetta á við um fleiri eldfjöll í heiminum en nú er þetta eiginlega best þekkta dæmið um þetta fyrirbrigði,“ segir Páll.

Hann segir gosið eitt það afdrifaríkasta sem að orðið hafi á Íslandi á síðari tímum.

„Það var sem sé mjög lærdómsríkt í eldfjallafræði. Svo kemur náttúrulega að því líka að þetta var mjög lærdómsríkt líka fyrir verkfræðinga og flug. Vegna þess að þetta náttúrulega olli gríðarlegu tjóni vegna flugsamgangna. Það var truflun á flugsamgöngum í öllum heiminum, aðallega þó á meginlandi Evrópu, sem kostaði gríðarlega mikið fé og þetta opinberaði eiginlega líka veikleika flugöryggismálum í heiminum og alla tíð síðan hafa menn verið að reyna að ráða bót á þessu,“ segir Páll.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×