Lífið

Hefur alveg sérstakt dálæti á að hræða börn

Guðrún Ansnes skrifar
Sigurjón er blússandi sáttur við heiðurinn sem felst í að tónlist barnaleikritsins skuli innblásin af HAM.fréttablaðið/andri marinó
Sigurjón er blússandi sáttur við heiðurinn sem felst í að tónlist barnaleikritsins skuli innblásin af HAM.fréttablaðið/andri marinó Vísir/Andri Maríno
„Þessir menn vildu bara að ég myndi gera þetta,“ segir Sigurjón Kjartansson, sem syngur Risalagið í uppsetningu Leikhópsins Lottu á Litlu gulu hænunni. Sigurjón kom ekki að lagasmíðum þó svo margan gæti grunað að svo væri, en lagið er vægast sagt ansi þungt og drungalegt, sér í lagi sé hugsað til markhóps leikhópsins. 

„Ég kannast nú við ýmislegt í þessu, og greinilegt að þarna eru þau undir ákveðnum áhrifum,“ segir hann dulúðlega og bætir við að hljómsveitin hans, HAM, sé að öllum líkindum innblásturinn, en Baldur Ragnarsson, gítarleikari Skálmaldar og meðlimur í leikhópnum samdi lagið.

„Þetta er það sem ég kalla heiður, á meðan verið er að halda heiðurstónleika út um allan bæ, þá finnst mér þetta frábært,“ segir Sigurjón yfir sig glaður.

Aðspurður um afrek sín á sviði barnaefnis stendur ekki á svörunum: „Ég er nú reyndar fræg barnastjarna, var til dæmis fyrsti Maggi mjói í Latabæ hér um árið og svo lék ég í Abbababb, sem er barnaleikrit líka.“

Sigurjón segist hafa sérlegt dálæti á að hræða börn, og það gerir hann vissulega í umræddu myndbandi. „Ég lék líka ömmu skrattans í Fóstbræðrum, og það var mikið af börnum sem hræddust mig. Raunar hræðast börn mig mikið. Mér finnst það gaman.“

Þrátt fyrir að skemmta sér konunglega í barnahræðingum, sem og upptökum við Risalagið, segist Sigurjón skellihlæjandi ekki ætla sér frekari umsvif á sviði barnaefnis. 




Tengdar fréttir

"Orðinn sérfræðingur í að skrifa afsökunarbréf“

"Það var mikið hringt og kvartað. Það er besti barómeterinn á viðbrögð, hvað er mikið kvartað,“ segir Sigurjón Kjartansson um fyrstu þætti Sigurjóns og félaga hans Jóns Gnarr í sjónvarpi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×