Lífið

María Ólafs bregður sér í gervi Sollu stirðu

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Söngkonan María Ólafsdóttir kann vel við sig í bleika búningnum sem einkennir Sollu stirðu.
Söngkonan María Ólafsdóttir kann vel við sig í bleika búningnum sem einkennir Sollu stirðu. vísir/pjetur
„Mér finnst mjög skemmtilegt og mikill að heiður að fá að hoppa inn í þetta hlutverk Sollu stirðu,“ segir söngkonan María Ólafsdóttir, sem bregður sér í hlutverk Sollu stirðu úr Latabæ á næstunni. Maríu þekkja flestir eftir að hún söng fyrir Íslands hönd í Eurovision síðastliðið vor.

Þar sem báðar stúlkurnar sem leikið hafa Sollu undanfarin ár, þær Unnur Eggertsdóttir og Melkorka Davíðsdóttir Pitt, eru staddar erlendis, mun María bregða sér í búning Sollu.

„Það er ótrúlega gaman að fá að takast á við þetta krefjandi hlutverk sem Solla stirða er. Þetta er persóna sem allir þekkja og börnin líta upp til og ég er mjög spennt,“ bætir María við.

Hún er þó alls enginn nýgræðingur þegar kemur að leiklistinni því hún lék Ronju Ræningjadóttur í uppfærslu Leikfélags Mosfellsbæjar fyrir skömmu, en sýningin var jafnframt valin athyglisverðasta áhugasýning leikársins á vorþingi Bandalags íslenskra listamanna og var af því tilefni sett upp á Stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu.

Þá hefur hún einnig leikið í sýningum á borð við Söngvaseið í Borgarleikhúsinu, Skilaboðaskjóðunni í Þjóðleikhúsinu, Michael Jackson-sýningu á Broadway, ásamt því að hafa leikið í fjölda nemendasýninga í Verzlunarskóla Íslands. „Ronja var mjög góður undirbúningur fyrir Sollu. Þær eru báðar svolítið ofvirkar og lífsglaðar týpur þó svo Solla sé heldur kurteisari,“ segir María og hlær.

Hún þreytir frumraun sína sem Solla stirða í Stykkishólmi um helgina og þá mun hún einnig skemmta krökkum í hlutverki Sollu í Latabæjarmaraþoninu á Menningardag. „Ef vel gengur þá er aldrei að vita nema maður fái að halda áfram í hlutverki Sollu stirðu í framtíðinni,“ segir María full tilhlökkunar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×