Lífið

Íslensk útgáfa af The Voice fer í loftið í haust

Stefán Árni Pálsson skrifar
Þátturinn fer í loftið í haust.
Þátturinn fer í loftið í haust. vísir
Sextíu söngvarar verða valdir til að taka þátt í íslenskri útgáfu sjónvarpsþáttarins The Voice sem sýndur verður á sjónvarpsstöðinni Skjá einum í haust.

Þetta kemur fram í Fréttatímanum í dag en The Voice er einn vinsælasti raunveruleikaþáttur í heiminum í dag. Um er að ræða hæfileikakeppni í söng og líkist þátturinn X-factor, Idol-þáttanna og Talent-þáttanna.

Í Fréttatímanum segir að þetta verði stærsta verkefni Skjásins frá upphafi.

„Við erum búin að vera eitt og hálft ár að undirbúa þetta verkefni og þátturinn fer í loftið í lok september,“ segir Pálmi Guðmundsson, sjónvarpsstjóri á Skjá 1, í samtali við Fréttatímann.

The Voice er sýndur í 120 löndum og Ísland verður 61. landið sem gerir sína eigin útgáfu af þættinum.

„Ólíkt öðrum svona þáttum þá eru keppendur valdir fyrir fram. Við þurfum að finna 60 frambærilega söngvara og við erum þegar búin að ná í tæplega helminginn af þeim,“ segir Pálmi þegar hann er spurður um undirbúninginn.

Íslenska útgáfan af The Voice verður eins og frumgerðin og munu fjórir dómarar sjá um að þjálfa söngvarana og keppa sín í milli. Pálmi segir að nú sé leitað að rétta fólkinu til að setjast í dómarasætin en hver þeirra verður með einn aðstoðarmann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×