Innlent

Stærsta björgunaraðgerð gæslunnar frá upphafi

þóra kristín ásgeirsdóttir skrifar
Áhöfnin á varðskipinu Tý sinnti björgunaraðgerðum í dag um 30 sjómílum norður af Líbýu þar sem um 320 flóttamenn, þar af mörg börn, voru bjargarlausir á fiskibát. Þetta er stærsta aðgerð gæslunnar frá upphafi. Halldór B. Nellett skipherra segir að fólkið hafi almennt verið í góðu ásigkomulagi, þótt einhverjir hafi kvartað um veikindi og aðrir verið þyrstir og svangir.

Neyðarkall barst frá bátnum snemma í morgun og hélt Týr, skip Landhelgisgæslunnar þegar á staðinn. Þrjú önnur skip voru á svæðinu en allt fólkið var tekið um borð í skipið sem siglir með fólkið áleiðis til Sikileyjar. Halldór segir að þetta sé það syðsta sem skipið hafi farið, en skipið var skammt undan ströndum Lýbíu þegar björgunaraðgerðin hófst. Hann segir að það sé vissulega mjög sérstakt að taka þátt í að bjarga svona mörgu fólki. Það sé bæði sorglegt að fólk þurfi að standa í þessu til að reyna að lifa betra lífi og svo sé auðvitað gleðilegt að geta bjargað svona mörgum.

Talsverðar annir hafa verið á þessu svæði undanfarið en í gær tók Týr þátt í annarri aðgerð þar sem bátur með flóttafólki snéri við til Líbýu. Týr mun sinna leit og björgun og landamæragæslu á þessu svæði fram í miðjan maí en ráðgert er að skipið komi til Ísland í lok maí. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×