Sjálf er Birna ráðsett móðir og kærasta, á lokametrum leikaranáms við Listaháskóla Íslands, og hefur ekki svo mikið sem reykt sígarettu. „Þetta var frekar fyndið, og mikið hlegið að mér á setti þegar ég var að reyna að læra að reykja,“ útskýrir Birna og skellir upp úr. „Mér var jafnframt kennt hvernig maður setur fíkniefni í sprautu, hvað gerist eftir að maður hefur tekið inn eiturlyf og allt þetta. Þetta hefur verið lærdómsríkt ferli.“
Segist Birna hafa hellt sér út í hlutverkið af réttum ástæðum og það skipti heilmiklu máli. „Þú hoppar ekkert út í nauðgunar- og nektarsenur nema gera það af réttum ástæðum. Ég fór í þetta með hjartanu alla leið, og það skiptir mig máli að segja þessar sögur. Ég þoli ekki þessa fordóma sem eru í gangi gagnvart svokölluðum Adidas-krökkum, og hvernig fólk leyfir sér að gera grín að þeim. Þetta gætu allt eins verið börnin þín,“ segir Birna alvarleg. „Við pössuðum okkur mikið á að fara varlega í þetta, og gættum þess að glamúr-væða ekki þetta líf. Þannig værum við að vanvirða aðstæðurnar. Það eru krakkar í djúpri neyslu allt í kringum okkur, þó við sjáum það kannski ekki.“

„Dóttir mín þekkir mig ekki í stiklunni. Ég passaði mig alltaf á að þrífa mig í framan og taka mér smá móment áður en ég svissaði aftur yfir í minn veruleika, þar sem mikið gat gengið á og hægara sagt en gert að koma til baka sveitt og útgrátin eftir nauðgunaratriði til dæmis,“ útskýrir Birna aðspurð um hvernig hafi verið að brúa bilið á milli Hönnu og Birnu.
Sjálf segist hún ekki hafa séð þættina, en hafi nú þegar varað fjölskyldumeðlimi við. „Maður systur minnar hefur til dæmis ákveðið að horfa bara alls ekki, en hann sér mig sem litlu systur sína. Þá lét ég mömmu og pabba vita að við værum ekkert að fara að horfa á þættina saman,“ útskýrir Birna og hlær dillandi hlátri. „Ég er gríðarlega spennt fyrir að sjá þetta, enda búið að vera gaman og lærdómsríkt að vinna með þessu hæfileikaríka fólki,“ skýtur hún að í lokin, með troðfulla vasa af gullkornum frá meðleikurum sem kunna öll trixin í bókinni.

Fyrsti þáttur nýju seríunnar fer í loftið á sunnudagskvöldið 18. október á Stöð 2 klukkan 21.35.