Erlent

Fílasteikur og ljónakjöt í 91 árs afmæli Mugabe

Atli Ísleifsson skrifar
Robert Mugabe hefur stjórnað Simbabve síðustu 35 ár.
Robert Mugabe hefur stjórnað Simbabve síðustu 35 ár. Vísir/AFP
Dýraverndunarsinnar og erlendir stjórnmálamenn hafa brugðist ókvæða við fréttum sem hafa borist af undirbúningi 91 árs afmælisveislu Robert Mugabe Simbabveforseta. Veislan fer fram við Viktoríufossa á laugardaginn.

Í frétt Mirror segir að tveir fílar, vísundar, ljón og ólíkar tegundir af antilópum séu á meðal þeirra villtu dýra sem til stendur að slátra en áætlaður kostnaður við hátíðarhöldin eru milli 600 og 850 milljónir króna. Búist er við að um 20 þúsund gestir verði viðstaddir afmælið.

Johnny Rodrigues, formaður stofnunar sem heldur utan um verndarsvæði landsins, segist misboðið vegna fréttanna. „Við segjumst vera með bestu náttúruverndarstefnu heims, en forsetinn sýnir ekki gott fordæmi. Hvernig getur hann talað gegn veiðiþjófnaði þegar hann heimilar þetta?“

Verkafólk víðs vegar um landið hefur neyðst til að leggja undirbúningi veislunnar lið. Þannig hafa um 1.500 krónur verið teknar af launum allra kennara landsins.

Mugabe hefur stjórnað landinu síðastliðin 35 ár og er efnahagur landsins í molum. Verðbólga er mikil og fátækt sömuleiðis og þarf því ekki að koma á óvart að veisluhöldin hafi vakið reiði.

Boris Johnson, borgarstjóri Lundúnaborgar, segist í grein ekki botna í því að nokkur skuli vilja sækja veislu forsetans. Segir hann með öllu óréttlætanlegt að halda veislu sem þessa á meðan flestir landsmenn þéni ekki nema um 50 krónur á dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×