Fótbolti

Blatter settur í 90 daga bann

Blatter er í vondum málum.
Blatter er í vondum málum. vísir/getty
Sepp Blatter, forseti FIFA, hefur verið settur í 90 daga bann af siðanefnd FIFA, samkvæmt Klaus Stoehlker, fyrrverandi ráðgjafa og vinar Blatters.

Ef satt reynist tekur Kamerúninn Issa Hayatou, sem hefur sjálfur oftsinnis verið ásakaður um spillingu, við starfi Blatters tímabundið.

Siðanefnd FIFA hefur fundað að undanförnu um framtíð Blatters og Michels Platini, forseta UEFA, evrópska knattspyrnusambandsins, og frambjóðanda í næstu forsetakosningum FIFA. Þeir hafa báðir neitað því að hafa óhreint mjöl í pokahorninu.

Blatter hafði áður lýst því yfir hann ætlaði að sitja áfram á forsetastóli fram að forsetakosningunum 26. febrúar á næsta ári, þrátt fyrir að fjórir af helstu styrktaraðilum FIFA (Coca-Cola, Visa, McDonald's og Budweiser) hefðu hvatt Svisslendinginn til að segja strax af sér.

Blatter hefur verið forseti FIFA síðan 1998 en á þessum 17 árum á forsetastóli hefur hann ítrekað verið ásakaður um spillingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×