Viðskipti innlent

Marple-málið: Kröfu Hreiðars um að dómarinn víki hafnað

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hreiðar Már Sigurðsson og Ásgeir Brynjar Torfason.
Hreiðar Már Sigurðsson og Ásgeir Brynjar Torfason. vísir
Ásgeir Brynjar Torfason, sérfróður meðdómari í Marple-málinu, mun ekki víkja sæti vegna vanhæfis. Úrskurður var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun en Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings og einn sakborninga, fór fram á að dómarinn myndi víkja. Telur Hreiðar að hann megi efast um óhlutdrægni dómarans, meðal annars vegna skrifa hans, „læka“ á Facebook og Twitter-færslna.

Ekki er hægt að kæra úrskurð til héraðsdóms þar sem aðalmeðferð málsins er lokið og það hefur verið dómtekið. Kveða á upp dóm á föstudaginn en Hreiðar getur þá farið fram á ómerkingu þess dóms ef hann áfrýjar til Hæstaréttar, á þeim grundvelli að Ásgeir Brynjar hafi verið vanhæfur til að dæma í málinu í héraði.

Hæstiréttur ómerkti fyrr á þessu ári dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í Aurum-málinu svokallaða. Með ómerkingunni féllst Hæstiréttur á kröfu ákæruvaldsins um að sérfróður meðdómari í málinu, Sverrir Ólafsson, hefði verið vanhæfur til að dæma í málinu vegna ummæla sem hann lét falla um sérstakan saksóknara eftir að dómur féll.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×