Viðskipti innlent

Guð­mundi falið að bera á­byrgð á hug­verkum Carbfix

Atli Ísleifsson skrifar
Guðmundur Reynaldsson
Guðmundur Reynaldsson

Guðmundur Reynaldsson verið ráðinn til Carbfix þar sem hann mun bera ábyrgð á hugverkum fyrirtækisins.

Í tilkynningu segir að ráðning Guðmundar sé liður í því að styrkja nýsköpunarstarf Carbfix enn frekar í viðleitni fyrirtækisins til að þróa lausnir gegn loftslagsbreytingum.

„Guðmundur er með doktorspróf í eðlisfræði frá Háskóla Íslands og er löggiltur einkaleyfalögfræðingur með yfirgripsmikla reynslu af hugverkarétti. Hann starfaði áður sem IP Director hjá Controlant og sem IP Manager og einkaleyfalögfræðingur hjá Marel,“ segir í tilkynningunni. 

Um félagið segir að það hafi verið stofnað í kjölfar umfangsmikilla rannsókna sem hafi hafist árið 2007 innan Orkuveitu Reykjavíkur í samstarfi við Háskóla Íslands, CNRS Toulouse í Frakklandi og Columbia háskóla í Bandaríkjunum. „Rannsóknirnar leiddu til þróunar tækni sem líkir eftir náttúrulegu ferli og breytir koldíoxíði varanlega í stein. Fyrstu niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Science árið 2016 og sýndu fram á að ferlið gæti bundið CO2 á aðeins tveimur árum.

Frá því að fyrirtækið hóf starfsemi árið 2012 hefur tæknin verið notuð til að binda tæplega 100 þúsund tonn af CO2 á Íslandi. Carbfix starfar nú með samstarfsaðilum í yfir 20 löndum og hefur tæknin verið vottuð af óháðum aðilum sem örugg og hagkvæm lausn til kolefnisbindingar.

Fyrirtækið, sem var formlega stofnað sem sjálfstæð eining árið 2020, hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands árið 2024, og vinnur að áframhaldandi innleiðingu tækni sinnar bæði á Íslandi og erlendis, með það að markmiði að hafa raunveruleg áhrif á loftslagsvá heimsins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×