Innlent

Fyrrverandi starfsmaður Alcoa-Fjarðaáls kærður fyrir fjárdrátt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Álver Alcoa-Fjarðaáls á Reyðarfirði
Álver Alcoa-Fjarðaáls á Reyðarfirði vísir/valli
Alcoa-Fjarðaál lagði fram kæru í liðinni viku á hendur fyrrverandi starfsmanni fyrirtækisins vegna fjármálamisferlis. Þetta staðfestir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa, við Vísi en fyrst var greint frá málinu í hádegisfréttum RÚV.

Dagmar kvaðst ekki geta tjáð sig um málið að öðru leyti þegar Vísir leitaði eftir því en að því er fram kemur í frétt RÚV er maðurinn á fimmtugsaldri og starfaði áður í tölvudeild Alcoa á Reyðarfirði. Talið er að meintur fjárdráttur nemi hátt í 10 milljónum króna.

Í nóvember síðastliðnum var annar fyrrverandi starfsmaður Alcoa Fjarðaáls dæmdur fyrir fjárdrátt og umboðssvik en maðurinn dró sér tæplega sex milljónir króna frá starfsmannafélagi álversins í Reyðarfirði. Maðurinn var gjaldkeri félagsins. Hann var dæmdur í átta mánaða fangelsi en þar af voru sex mánuðir refsingarinnar bundnir skilorði til tveggja ára.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×