Innlent

„Vinnu­brögð undan­þágu­nefndarinnar verða að breytast“

Hjörtur Hjartarson skrifar
Það gengur ekki að til þurfi grátbænir frá yfirlæknum, forstjóra og landlækni til að koma í gegn of fáum en nauðsynlegum undanþágubeiðnum í gegnum Félag geislafræðinga, segir forstjóri Landspítalans. 

Birgir Jakobsson, landlæknir sakaði félag geislafræðinga í kvöldfréttum stöðvar 2 í gær að með vísvitandi og með óábyrgum vinnubrögðum, stefna öryggi í sjúklinga í hættu. Heilbrigðisstarfsmönnum beri í öllum tilfellum að setja hag sjúklinga í fyrsta sæti.

„Mér finnst að það sé verið að hliðra á því núna hjá sumum stéttarfélögunum og það er mjög alvarlegt að mínu mati,“ sagði landlæknir.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans lýsti sömuleiðis yfir miklum áhyggjum yfir stöðu mála og gagnrýndi um leið félag geislafræðinga. Í yfirlýsingu frá BHM og félagi geislafræðinga sem send var fjölmiðlum í gærkvöld er þessum ásökunum hafnað og fram tekið að veittar hafi verið undanþágur fyrir daginn á morgun og neyðarástandi þar með afstýrt.

„Nei okkar viðbrögð við því eru í rauninni þau að vissulega voru ákveðnar undanþágur veitt er en öðrum ekki síðar beiðnum var áfram hafnað,“ segir Páll.

„Það gengur ekki að það þurfi endurtekið 15 til 20 manna fundi með þrýstingi og grátbænum yfirlækna, forstjóra og landlæknis til að koma augljóslega nauðsynlegum undanþágubeiðnum í gegn,“ segir hann og bætir við: „Vinnubrögð undanþágunefndarinnar verða að breytast. Annars verðum við á sama stað nær samstundis og öryggi sjúklinga verður áfram í hættu.“

En er staðan ekki orðin það alvarleg að öryggi sjúklinga verður ekki tryggt með afgreiðslu undanþágubeiðna? „Ef allir aðilar er sammála um það að undanþágur gangi vel og greitt í gegn og sjúklingar eru í öllum tilfellum látnir njóta vafans að þá höktir þetta áfram. Ég vil ekki halda því fram að það þurfi endilega að grípa inn í verkfallsrétt fólks en þá verða báðir aðilar að spila saman og það hefur skort mikið upp á það.“

Greinilegt er á öllu að töluverð reiði og kergja einkenna samskipti deiluaðila núna. Páll segir það ekki til bóta. „Reiði og kergja á ekkert erindi inn í þessa umræðu. Það er einfaldlega verið að sinna sjúklingum og tryggja öryggi þeirra.“

Páll telur að ástandið nú sé mun alvarlegra en í læknaverkfallinu í kringum áramótin. „Jú, það er svo, klárlega,“ segir hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×