Íslenski boltinn

Sættir sig ekki við að KSÍ kalli hann ofbeldismann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásgeir Magnús Ólafsson hefur sent formanni og framkvæmdastjóra KSÍ bréf þar sem hann lýsir yfir óánægju sinni með störf og framkomu Sigurðar Óla Þorleifssonar, starfsmanns Knattspyrnusambands Íslands, í hans garð.

Ásgeir Magnús fór inn á völlinn eftir úrslitaleik FH og Stjörnunnar 4.október síðastliðinn og kippti línuverðaflagginu úr hendi Sigurðar Óla Þorleifssonar, aðstoðardómara leiksins. Hann segist ekki hafa snert Sigurð Óla.

„Það var verið að ljúga upp á mig að ég hafi slegið mann og ég sætti mig ekki við það," segir Ásgeir Magnús Ólafsson í viðtali við Íþróttadeild 365 sem birtist í kvöldfréttum Stöðvar tvö.

„Það viðurkenndi ég strax og sagði það í samtali við dómara leiksins daginn eftir þegar við áttum símtal að ég myndi bæta það ef eitthvert tjón hefði orðið á flagginu. Svo fæ ég fréttir um það eins og ég orða í bréfinu að ég hafi átt að hafa slegið manninn. Það er algjörlega rangt og ég get ekki sætt við mig við þessar lygar," segir Ásgeir Magnús.

„Þeir segja annað en ég á símtal sem ég vísa í bréfinu mínu. Það símtal átti ég við línuvörðinn Sigurð Óla og tók það fram í upphafi að ég væri að taka símtalið upp. Þar kom fram í fyrstu eða annarri setningu hjá honum að það gæti hafa verið einhver annar en þar var hann kominn inn í öngstræti með sinn málflutning enda er lygi ekki góður málflutningur. Það þarf hann að horfast í augu við," sagði Ásgeir Magnús.

Ásgeir Magnús viðurkennir fúslega að hann hafi farið inn á völlinn í óleyfi.  „Bréfið mitt snýst ekki um það. Ég viðurkenni allt sem ég gerði það og ég er ekki stoltur af því að hafa farið inn á völlinn og tekið flaggið. Hugsunin hjá mér var bara svipuð því að taka eldspítur af óvita. Það var ekkert annað en táknrænt. Ég er ekki stoltur af því og hefði að sjálfsögðu ekki átt að gera þetta," sagði Ásgeir Magnús.

„Ég er búinn að biðja KSÍ afsökunar og biðja FH-inga afsökunar. Ég ætlaði að biðjast afsökunar í samtalinu við línuvörðinn en samtalið leiddi okkur annað og hann sleit því. Hér með vil ég fyrir framan alla þjóðina biðja hann afsökunar á því að hafa tekið af honum flaggið en án þess að snerta hann. Við vitum það báðir að hann er að ljúga í öllu þessu ferli og fleiri eru að ljúga eins og kemur fram í bréfi mínu," sagði Ásgeir Magnús.

„Í atvikalýsingu er ítrekað sagt að ég hafi slegið manninn. Í fyrstu var mér sagt að það hafi verið haft eftir fréttamanni sem er alrangt. Það er vegið að fréttamanni og ákveðnum fjölmiðli sem er mjög slæmt," sagði Ásgeir Magnús.

„Þú getur gert mistök en þú átt ekki að komast upp með það að ljúga. Ég sætti mig ekki við að vera kallaðir ofbeldismaður," sagði Ásgeir Magnús.

Það er hægt að sjá allt viðtalið við Ásgeir Magnús Ólafsson hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×