Körfubolti

Eigandi Knicks sagði 73 ára gömlum manni að byrja að halda með Nets

Tómas Þór Þórðarson skrifar
James Dolan er ekki sá vinsælasti hjá stuðningsmönnum NY Knicks.
James Dolan er ekki sá vinsælasti hjá stuðningsmönnum NY Knicks. vísir/getty
James Dolan, eigandi New York Knicks stjórnarformaður Madison Square Garden, sagði stuðningsmanni liðsins að byrja að halda með Brooklyn Nets því Knicks vill ekki lengur hafa hann sem stuðningsmann.

Irving Bierman, 73 ára gamall maður sem hefur stutt Knicks síðan 1952, er vægast sagt ósáttur við Dolan og ákvarðanir hans og sendi eigandanum tölvupóst til að láta hann vita af því.

„Á einum tímapunkti fannst mér þú vera að gera góða hluti þegar þú erfðir allt frá föður þínum. Aftur á móti hefur allt gengið á afturfótunum síðan þá,“ skrifaði Bierman, en um þetta er fjallað á vefsíðu ESPN.

„Sem stuðningsmaður Knicks í 60 ár skammast ég mín algjörlega fyrir störf þín hjá Knicks. Seldu liðið svo stuðningsmennirnir geti a.m.k. hlakkað til að liðið fari í jákvæðari átt. Augljóslega eru peningar ekki allt. Þú hefur gert fullt af ótrúlega heimskum hlutum með þetta félag. Vinsamlegast hættu.“

Dolan var ekkert alltof sáttur við póstinn og ákvað að svara gamla manninum. Búið er að staðfesta við ESPN að Dolan sá alfarið um það sjálfur að skrifa eftirfarandi tölvupóst:

„Af hverju myndi einhver skrifa svona bréf fullt af hatri. Það er mín ágiskun að lífið þitt sé í rústi. Hvað hefur þú gert sem einhver myndi kalla jákvætt eða gott? Ég ætla að giska á ekkert.“

„Líklega hefur þú gert alla fjölskylduna þína óánægða. Kannski ertu alkahólisti. Ég var að fagna 21 ári án áfengis. Þú ætti kannski að prófa það. Kannski hjálpar það þér að vera persóna sem fólk vill vera í kringum. En þar til það gerist máttu endilega byrja að halda með Nets því Knicks vill ekki sjá þig.“

Aðspurður í útvarpsviðtali hvort það kæmi til greina að byrja að halda með Brooklyn Nets svaraði Bierman ákveðinn: „Aldrei!“

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×