Erlend ferðakona, sem var að koma frá Bristol, fékk rútuhlera í höfuðið við komu hennar til landsins í gær. Af því hlaut hún töluverða áverka og var sjúkralið kallað á vettvang, að því er fram kemur í tilkynningu lögreglu. Ekki kemur fram hvert ástand hennar er í dag.
Þetta voru því heldur slæm fyrstu kynni af landinu en verið var að ganga frá farangri hennar þegar vindhviða reið yfir og skellti hleranum í höfuð hennar. Afar slæmt veður var víða um land í gær og Keflavík þar ekki undanskilin. Veðrið varð meðal annars til þess að ekki var hægt að lenda flugvél Icelandair sem var á leið frá Kaupmannahöfn og var henni af þeim sökum lent á Reykjavíkurflugvelli.
Slæm byrjun á ferðalagi til Íslands
Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
![](https://www.visir.is/i/5EE0C6A570B15122BBAA3150CA28EE343924855DD9A8A28DB336912DA1047714_713x0.jpg)