Erlent

Milljón börn á flótta undan Boko Haram

guðsteinn bjarnason skrifar
Fjöldi fólks safnaðist saman í gær og skoraði á Muhammadu Buhari, nýkjörinn forseta, að grípa til aðgerða.
Fjöldi fólks safnaðist saman í gær og skoraði á Muhammadu Buhari, nýkjörinn forseta, að grípa til aðgerða. nordicphotos/AFP
Hundruð manna komu saman í höfuðborginni Abuja í Nígeríu í gær til að minna á meira en 200 stúlkur sem liðsmenn Boko Haram rændu úr skóla í Chibok fyrir réttu ári, þann 14. apríl 2014. Ættingjar stúlknanna krefjast þess að stjórnvöld geri meira til þess að frelsa stúlkurnar.

Víða um heim var einnig efnt til athafna til að minna á stúlkurnar, sem nú hafa flestar verið í heilt ár í haldi þessa pólitíska sértrúarsafnaðar sem hefur lagt undir sig stór svæði í norðaustanverðri Nígeríu.

Bæði Amnesty International og UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sendu frá sér ítarlegar skýrslur í gær um ástandið í Nígeríu.

Skýrsla Amnesty nefnist „Verkefni okkar er að skjóta, slátra og drepa“ og fjallar um ógnarstjórn Boko Haram. Undanfarin fimm ár hafa liðsmenn Boko Haram drepið þúsundir manna, þar af 4.000 á síðasta ári og að minnsta kosti 1.500 manns það sem af er þessu ári. Samtökin hafa rænt að minnsta kosti tvö þúsund mönnum og hrakið milljón manns frá heimilum sínum. Voðaverk samtakanna hafa haft gríðarleg áhrif á líf milljóna manna.

Skýrslan frá UNICEF nefnist „Horfin barnæska“ og þar er sjónum beint sérstaklega að áhrifum þessa ógnarástands á börn. Þar kemur fram að meira en 800 þúsund börn hafa hrakist að heiman á þessum svæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×