Lífið

Hanna Rún og Nikita komast sennilega ekki á Evrópumótið: „Þetta er alveg ömurlegt“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fari Nikita og Hanna Rún á Evrópumótið er þátttöku þeirra í Ísland Got Talent stefnt í voða.
Fari Nikita og Hanna Rún á Evrópumótið er þátttöku þeirra í Ísland Got Talent stefnt í voða. vísir/andri marinó
„Við erum bara stödd á Keflavík að bíða eftir fluginu okkar til Noregs,“ segir Hanna Rún Bazev Óladóttir. Hún og maður hennar, Nikita Bazev, ætluðu að keppa á Evrópumótinu í latín dönsum, sem fram fer í Árósum á morgun, en nú er útlit fyrir að þau komist ekki út.

Ástæðan fyrir því er að mikil seinkun er á flugum SAS til Osló. Flugvélar félagsins hafa ekki komið til landsins sökum þess hve slæmt veður er í Noregi. Flug Hönnu og Nikita átti að fara í loftið 12.40 en hefur verið seinkað til 16.30.

„Þá er alls óvíst hvort við náum tengifluginu okkar og að auki þora þau ekki að lofa hvort við komumst heim á réttum tíma þar sem biðlistar hafa hrannast upp hjá þeim. Það er til að mynda maður hér sem hefur beðið eftir fluginu sínu í 35 klukkustundir og veit ekki hvenær hann kemst út,“ segir Hanna.

Áætlunin hjónanna var að fljúga til Osló, þaðan til Kaupmannahafnar og enda að lokum í Árósum. „Við höfum skoðað það að kaupa önnur flug en það ódýrasta sem við finnum er 540.000 krónur fram og til baka fyrir okkur bæði. Við höfum nú þegar greitt 220.000 krónur,“ segir hún.

Á sunnudag eiga þau að keppa í síðasta undanúrslitaþætti Ísland Got Talent. Hann segir það alls óvíst að þó þau komist út að þau muni fara þar sem ekki er víst að þau komist heim fyrir þáttinn.

„Þetta er mjög leiðinlegt og við erum í raun enn að átta okkur á þessu. Við höfðum hlakkað mjög til að keppa en núna verðum við líklega að setja fókusinn á Ísland Got Talent og gleyma Evrópumótinu,“ segir Hanna að lokum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.