Átján Sýrlendingar sóttu um hæli á Íslandi á fyrstu átta mánuðum ársins. Afgreiðslu átta mála hefur þegar verið lokið og fékk helmingur þeirra hæli hér á landi.
Hælisleitendum hefur fjölgað ört á Íslandi undanfarið en það sem af er ári hafa 165 sótt um hæli á Íslandi. Í ágústmánuði einum sóttu 49 um hæli eða jafn margir og sóttu um hæli síðustu þrjá mánuðina á undan. Flestir þeirra sem sótt hafa um hæli eru frá Albaníu eða 51 einstaklingur. Þá eru Sýrlendingar næst fjölmennastir en 18 Sýrlendingar sóttu um hæli á Íslandi á fyrstu átta mánuðum ársins. Útlendingastofnun hefur lokið að fara yfir umsóknir átta Sýrlendinga. Fjórum þeirra var veitt staða flóttamanns og hæli á Íslandi.
Þrír voru sendir til annars Evrópuríkis á grundvelli Dyflingarreglugerðarinnar. Einn hafði þegar fengið vernd í Evrópuríki og var honum gert að snúa þangað aftur.

