Innlent

Vinnslustöðin kaupir af Granda

Svavar Hávarðsson skrifar
Tvö glæsileg skip leysa þrjú eldri af hólmi.
Tvö glæsileg skip leysa þrjú eldri af hólmi. mynd/hbgrandi
Sjávarútvegsfyrirtækið HB Grandi hefur selt Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum tvö eldri uppsjávarskip sín. Hluti af kaupunum er 0,68 prósent aflahlutdeild í loðnu en kaupverðið í allt er 2,1 milljarður króna.

Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki stjórna félaganna tveggja og ástandsskoðun skipanna en HB Grandi tilkynnti viðskiptin til Kauphallar Íslands á mánudagskvöld.

Umrædd tvö skip eru Faxi RE 9, smíðaður 1987 í Póllandi, og Ingunn AK 150, smíðuð árið 2000 í Síle.

Salan tengist kaupum HB Granda á tveimur nýjum uppsjávarskipum í Tyrklandi – þeim Venusi NS og Víkingi AK – en það fyrrnefnda er á siglingu til heimahafnar á Vopnafirði. Víkingur er væntanlegur til landsins síðar á þessu ári.

Lundey NS, sem er þýsk smíði frá árinu 1960 og er þriðja uppsjávarveiðiskip HB Granda, hefur verið lagt og er skipið til sölu.

HB Grandi lætur smíða þrjá ísfisktogara fyrir sig í Tyrklandi til viðbótar við fyrrnefnd uppsjávarveiðiskip. Tveir þeirra verða afhentir á næsta ári; Engey RE og Akurey AK. Síðasti ísfisktogarinn verður afhentur árið 2017 og mun bera nafnið Viðey RE. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×