Viðskipti innlent

Stóru terturnar seldust betur í ár en í fyrra

Haraldur Guðmundsson skrifar
Flugeldasala björgunarsveitanna fór vel af stað og jafnvel betur en oft áður.
Flugeldasala björgunarsveitanna fór vel af stað og jafnvel betur en oft áður. Vísir/Vilhelm
„Flugeldasalan gekk mjög vel og virðist við fyrstu sýn hafa verið örlítið meiri en í fyrra,“ segir Jón Ingi Sigvaldason, sölu- og markaðsstjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

„Það virðist hafa verið meiri sala í stærri vörum. Það er ekki hægt að segja að það sé sprenging í þessu en stærri terturnar seldust aðeins betur en í fyrra,“ bætir Jón við.

Flugeldar Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru fáanlegir á 130 sölustöðum um allt land. Þar af voru um sextíu í höfuðborginni.

„Seinustu þrjú ár hafa verið mjög svipuð í sölu og þetta ár virðist ætla að vera á pari við þau eða jafnvel aðeins meira.“

Verð á flugeldum stóð í stað milli ára eins og kom fram í Fréttablaðinu í síðustu viku. Um 502 tonn af flugeldum voru flutt inn fyrir þessi áramót en 406 tonn voru send hingað til lands fyrir áramótin 2013/2014. Jón segir endanlegar sölutölur ekki liggja fyrir fyrr en eftir þrettándann og því sé ekki hægt að segja til um hvort björgunarsveitirnar hafi selt allan sinn hluta af heildarinnflutningnum.

„Kerfið okkar er byggt upp þannig að allar sveitirnar eru sjálfstæðar og því þarf að taka allar sölutölur saman eftir þrettándann. En við viljum þakka þjóðinni fyrir stuðninginn og vonum að allir hafi verið ánægðir með það sem þeir skutu upp,“ segir Jón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×