Tónlist

Flytur til Denver og klárar plötu

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Tónlistarkonan Sigurlaug Gísladóttir, betur þekkt sem Mr. Silla, kveður Ísland í bili.
Tónlistarkonan Sigurlaug Gísladóttir, betur þekkt sem Mr. Silla, kveður Ísland í bili. fréttablaðið/Daníel
„Ég ætla aðeins að skreppa og verð í þrjá mánuði í senn en kem svo aðeins heim á milli,“ segir tónlistarkonan Sigurlaug Gísladóttir, betur þekkt undir listamannsnafninu Mr. Silla. Hún er að flytja til Bandaríkjanna, nánar tiltekið Denver í Colorado, og fer út 10. janúar.

„Það eru spennandi tímar fram undan,“ segir Sigurlaug. Hún hefur þó aldrei komið til borgarinnar áður og því mikil tilhlökkun fyrir nýju ævintýri.

Sigurlaug ætlar að einbeita sér að tónlistinni í Bandaríkjunum. „Ég er að leggja lokahönd á nýja plötu og kem til með að klára hana úti.“ Hún er jafnframt fyrsta sólóplata Sigurlaugar. „Ég hef gefið út nokkrar plötur en þær hafa verið svona samstarfsplötur, Mr. Silla & Mongoose og með Múm,“ bætir Sigurlaug við.

Hún syngur öll lögin og leikur einnig á flest hljóðfærin sem á plötunni eru. „Mike Lindsay pródúserar plötuna og spilar einnig inn á hana. Tyle Ludwick spilar á gítar.“ Það liggur þó ekki fyrir hvenær platan kemur út.

Sigurlaug heldur kveðjutónleika í Mengi, fimmtudagskvöldið 8. janúar næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.