Lífið

Íslensk fyrirsæta í rússnesku myndbandi

Hulda ásamt rússneska tónlistarmanninum Nikolay Stravinsky, hæstánægð í íslensku rigningunni.
Hulda ásamt rússneska tónlistarmanninum Nikolay Stravinsky, hæstánægð í íslensku rigningunni. Vísir
Íslenska fyrirsætan Hulda Vigdísardóttir fer með aðalhlutverk í myndbandi rússneska tónlistarmannsins Nikolay Stravinsky, en myndbandið var tekið upp hér á landi um páskana 2014.

„Leikstjóri myndbandsins sendi mér bara tölvupóst og spurði hvort ég vildi vera með í myndbandinu. Ég býst við að hann hafi bara fundið mig á netinu,“ segir Hulda.

Leikstjóri myndbandsins er Drazen Kuljanin og um kvikmyndatöku sá Anna Patarakina, sem gerði myndbandið við eitt vinsælasta lag síðasta árs, Rather Be með Clean Bandit. Tökur á myndbandinu stóðu yfir í tvo daga og fóru aðallega fram í Borgarfirði og við Skógafoss.

„Þau leigðu hús í Borgarfirði þar sem við vorum. Þau voru búin að heyra mikið um landið og hvernig landslagið og veðrið væri. Það vildi svo skemmtilega til að veðrið var í essinu sínu þessa daga og var „extra“ breytilegt, þannig að við fengum án gríns allar tegundir af veðri,“ segir Hulda.

Hún bætir við að það hafi verið hálf skondið að fylgjast með þeim í veðrabreytingunum og að þau hefðu varla getað trúað þessu. „Þau voru alltaf að tala um hvað landslagið væri æðislega fallegt og þetta væri nú bara eins og að vera á annarri plánetu eða á tunglinu,“ segir hún.

Myndbandið hefur fengið mikla spilun á rússnesku MTV-stöðinni og í Evrópu. Í kjölfarið hefur Hulda fengið fjöldann allan af tölvupósti og skilaboðum á Facebook frá aðdáendum Stravinsky um Ísland.

„Það er rosa mikið verið að spyrja um landið og svona, Margir eru að spyrja hvenær sé best að heimsækja landið, að vetri eða sumri til. Ég veit ekki hvort það hefur einhver komið, en það er einn strákur sem ætlar að heimsækja landið í sumar,“ segir Hulda. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×