Lífið

Kírópraktor opnar myndlistarsýningu

Adda Soffia Ingvarsdóttir skrifar
Guðmundur Birkir Pálmason
Guðmundur Birkir Pálmason Vísir/Ernir
„Það var eiginlega bróðir minn, Hlynur Pálmason, listamaður og leikstjóri, sem ýtti mér út í það að mála,“ segir Guðmundur Birkir Pálmason, kírópraktor hjá Kírópraktorstofu Íslands, sem opnar sína fyrstu myndlistarsýningu á Íslandi í Anarkíu galleríi í Kópavogi á föstudag.

Guðmundur, sem lærði kírópraktorsfagið í Svíþjóð, byrjaði að mála þegar hann var enn í námi. „Ég er alveg ólærður í þessu og þetta gerðist eignlega alveg óvart. Smám saman fór ég að prófa mig áfram við að mála, sem endaði með því að ég hélt sýningu í Svíþjóð,“ segir hann, en á sýningunni úti seldust öll verkin hans. „Það gaf mér aukið sjálfstraust og kraft til að halda áfram og prófa að mála meira,“ segir Guðmundur.

Verkin hans eru abstrakt og segist hann nota alls kyns efni í þau. „Ég nota margs konar efni til að fá ákveðinn strúktúr og vídd í verkin. Svo nota ég olíuliti, akrýl, skipamálningu og bara hvað sem kallar á mig þá stundina,“ segir hann.

Á sýningunni verða hátt í tuttugu myndir eftir hann. Flestar þeirra eru í stærri kantinum, en Guðmundur segist vera mislengi að klára hvert verk. „Það fer svolítið eftir myndinni. Stundum get ég endalaust verið að vinna í henni og bætt við, svo eru aðrar sem klárast strax.“

Guðmundi er svo sannarlega margt til lista lagt. Það er ekki nóg með að hann sé kírópraktor í fullu starfi og máli myndir, heldur dundar hann sér einnig við að hanna skartgripi, sem Unnur Óladóttir smíðar fyrir hann, heldur úti matarbloggi og skipuleggur æfingaferðir til Svíþjóðar.

Það lá því beinast við að spyrja hann hvort hann hafi fleiri klukkustundir í sólarhringnum en við hin.„Nei, það er nú ekki þannig, ég held að það sé frekar að ég sé ofvirkur,“ segir hann og hlær.

„Þetta spilar allt vel saman, mér finnst gaman þegar það er margt í gangi og verð hálf eirðarlaus ef það er ekki of mikið að gera hjá mér. Ég þarf alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni,“ segir Guðmundur. Nánari upplýsingar um verk Guðmundar er að finna á heimasíðu hans www.norrart.com. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×