Íslenski boltinn

KR vonast til að landa Dana á næstunni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Henrik Bödker hefur verið hjá Stjörnunni undanfarin ár.
Henrik Bödker hefur verið hjá Stjörnunni undanfarin ár. vísir/daníel
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins þykir nokkuð líklegt að Daninn Henrik Bödker gangi í raðir KR á næstu dögum, en hann sagði upp starfi sínu hjá Stjörnunni eftir síðasta tímabil.

Auk þess að sinna markvarðaþjálfun þar hefur hann fengið alla þá Dani, sem hafa staðið sig svo vel í Garðabænum, til landsins.

„Ég hef ekki heyrt að hann sé búinn að taka ákvörðun. Við höfum rætt við hann og fleiri eftir að Guðmundur Hreiðarsson hætti hjá okkur,“ segir Baldur Stefánsson, varaformaður knattspyrnudeildar KR. Sjálfur vildi Henrik ekki ræða málið þegar Fréttablaðið hafði samband við hann í gærkvöldi.

Henrik hefur þó bent KR á danska leikmenn til að fylla í þau skörð sem hoggin hafa verið í liðið.

„Við höfum verið í viðræðum við nokkra leikmenn af þeim og það eru einhverjar líkur á að við reynum að loka einhverju af því. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn en ég er þokkalega brattur á að það dragi til tíðinda á næstu dögum eða vikum,“ segir Baldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×