Lífið

Leggur af stað í sitt fyrsta tónleikaferðalag um landið

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Herbert Guðmundsson, fer ásamt Hirti Howser og syni sínum Guðmundi í tónleikaferðalag í febrúar.
Herbert Guðmundsson, fer ásamt Hirti Howser og syni sínum Guðmundi í tónleikaferðalag í febrúar. mynd/Pétur Friðgeirsson
„Þetta er í fyrsta sinn sem ég fer í svona formlegt tónleikaferðalag um landið,“ segir tónlistarmaðurinn Herbert Guðmundsson. Hann skipuleggur nú af kappi heljarinnar tónleikaferð um landið og gerir ráð fyrir að leggja í hann um miðjan febrúar. „Þá er veðrið farið að skána og svona,“ bætir Herbert við. Tónleikarnir eiga að vera þægilegir og í nánd við áhorfendur. „Þetta verður svona „klósöpp“ fílingur.“

Herbert gerir ráð fyrir að tónleikarnir geti verið um fimmtán til tuttugu talsins, út um allt land. „Það er ekki alveg komið á hreint hversu margir tónleikar þetta verða. Draumurinn er svo að enda á einum á stórum tónleikum.“ Stefnt er svo að því að nota innslag frá tónleikunum í heimildarmyndina sem verið að vinna um Herbert en hún er vel á veg komin en það eru þeir Friðrik Grétarsson og Ómar Sverrisson sem vinna að myndinni.

Herbert hefur farið um landið áður en ekki með þessum hætti. „Ég fór með hljómsveitunum Tilveru og Pelican á þessa stærri staði eins og Akureyri, Ísafjörð, Egilsstaði og svoleiðis á sínum tíma en núna ætla ég líka að heimsækja þessa minni staði,“ útskýrir Herbert. Þá fór hann einnig í ferðir um landið þegar hann seldi bækur á árum áður. „Ég hef ekki selt bækur síðan fyrir hrun en ég les samt mikið af bókum sjálfur.“

Hann ætlar þó að taka geisladiskana með sér í ferðalagið til að selja, en þeir eru þó ekki það eina sem hann tekur með sér í ferðalagið, því Hjörtur Howser og yngsti sonur Herberts, Guðmundur, fara einnig með.

„Hjörtur er á hljómborði og svo er sonur minn á kassagítar og raddar, það er svo gaman að nálgast lögin svona „unplugged“. Við Hjörtur höfum verið að spila slatta saman tveir og það hefur komið vel út. Gaman að nálgast lögin svona.“

Þeir félagar ætla fara saman á einum bíl með lítið hljóðkerfi og er tilhlökkunin mikil í þeim félögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×