Innlent

Ofkeyrsla í líkamsrækt getur valdið varanlegum skaða

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
„Þegar fólk fer af stað í líkamsrækt á það ekki að vera með nein læti,“ segir Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari.
„Þegar fólk fer af stað í líkamsrækt á það ekki að vera með nein læti,“ segir Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
Æ algengara er að einstaklingar færist of mikið í fang í heilsurækt og verði fyrir varanlegum skaða. Þetta segir Gauti Grétarsson, sjúkraþjálfari hjá Sjúkraþjálfun Reykjavíkur. Fyrir nokkrum árum greindi Gauti frá áhyggjum sínum af því að meiðslum, áverkum og álagseinkennum sem rekja mætti til allt of mikillar þjálfunar hefði fjölgað mikið. Hann segir ástandið nú vera orðið enn verra.

„Það er fullt af fólki að ofkeyra sig í því sem á að vera heilsurækt. Skammtímaárangur af svokallaðri ofurþjálfun getur verið svakalega mikill en skemmdirnar á líkamanum geta orðið varanlegar. Það kom kona til mín um daginn í sjúkraþjálfun vegna skaða sem hún hlaut í bílslysi fyrir 40 árum. Eftir 40 ár munu kannski einstaklingar koma til sjúkraþjálfara vegna skaða sem þeir hlutu núna í crossfit eða bootcamp,“ segir Gauti.

@kvót fréttasíður nafnogtitill:gauti Grétarsson
Hann tekur fram að margir setji sér alltof háleit markmið. „Í stað þess að miða að því að ná ákveðnum árangri á fjórum árum, eins og íþróttamenn gera til dæmis fyrir Ólympíuleika, ætlar fólk að ná þeim árangri á fjórum mánuðum. Þegar fólk fer af stað í líkamsrækt á það ekki að vera með nein læti. Fólk þarf jafnframt að kanna hvort sá sem þjálfar það hafi til þess einhverja þekkingu. En hver og einn ber ábyrgð á eigin heilsu. Það á ekki að láta djöfla sér út við æfingar og kenna svo bara þjálfaranum um. Fólk er alltaf að ofmeta eigin getu og það þarf ekki að æfa svona svakalega mikið.“

Gauti bendir á að lágmarkshreyfing til þess að koma í veg fyrir sjúkdóma sé 30 mínútna hreyfing á dag með hóflegri áreynslu. Um geti verið að ræða röska göngu, sund, hjólreiðar, margvíslega leiki eða dans, vinnu í garðinum og inni á heimilinu. Að sögn Gauta gerir hreyfingin sama gagn þótt 30 mínútum sé skipt í nokkrar styttri lotur yfir daginn.

Þjálfaðir íþróttamenn fara ekkert síður yfir strikið í æfingum en aðrir, að því er Gauti greinir frá. „Það er alltof mikil þjálfun í mörgum greinum íþrótta og einnig hjá krökkum. Margt efnilegt íþróttafólk er eyðilagt með of miklum æfingum. Krakkar sem æfa eðlilega fá næga þjálfun en þeir sem æfa ekki fá of litla þjálfun.“

Sjúkraþjálfarar fást við meiðslin, álagseinkennin og áverkana sem einstaklingar verða fyrir vegna of mikillar þjálfunar. En í alvarlegustu tilfellum þurfa einstaklingar að leita á bráðamóttöku, eins og þegar um rhabdomyolysis eða rákvöðvalýsu er að ræða. „Vöðvafrumur skemmast eða eyðileggjast og innihald þeirra fer út í blóðið. Nýrun hafa ekki undan við að hreinsa blóðið og ástandið getur orðið lífshættulegt. Það er talsvert um að fólk þurfi að fara inn á spítala vegna slíks ástands og miklu algengara en almenningur gerir sér grein fyrir,“ segir Gauti.

Helstu einkenni rhabdomyolysis eru mikil eymsli og bólga í vöðvum sem verða mjög stífir. Meðal einkenna eru einnig hiti og ógleði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×