Lífið

Hefur helgað sig hugðarefni sínu

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Kristín er menntaður íþrótta- og grunnskólakennari.
Kristín er menntaður íþrótta- og grunnskólakennari. Vísir/Vilhelm
„Það er algjörlega mitt hugðarefni að öll börn fái tækifæri til þess að læra í gegnum hreyfingu á faglegan og skemmtilegan hátt,“ segir Kristín Einarsdóttir, höfundur kennsluaðferðarinnar Leikur að læra.

„Ég er búin að vera að þróa þetta í sjö ár og á síðasta ári hætti ég að kenna og er nánast bara í þessu,“ segir Kristín, sem hefur mikla trú á verkefninu. „Rannsóknir á heilastarfsemi barna styðja við námsefnið. Öll börn elska hreyfingu og þetta hentar sérstaklega vel fyrir börn með greiningar á ofvirkni og athyglisbresti.“

Leikur að læra er kennsluaðferð þar sem börnum á aldrinum tveggja til tíu ára eru kennd öll bókleg fög í gegnum leiki og hreyfingu. Kristín er menntaður íþrótta- og grunnskólakennari en hugmyndin að verkefninu kviknaði þegar hún kenndi á yngsta stigi.

Hún segir námsefninu hafa verið vel tekið. „Síðastliðin tvö ár hafa yfir þúsund kennarar komið á námskeið og foreldrar eru mjög áægðir með þetta. Núna er ég líka komin með foreldranámskeið, sýni foreldrum hvernig er hægt að kenna börnunum heima án þess að vera sitjandi við borð,“ segir Kristín en næst á dagskránni er að halda til Noregs og kynna Leik að læra þar.

Nánari upplýsingar um kennsluaðferðina er hægt að nálgast á Leikuradlaera.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×