Lífið

Martraðir og draumar

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Solveig Pálsdóttir
Solveig Pálsdóttir Mynd/SolveigPálsdóttir
Solveig Pálsdóttir opnar í dag sjöundu einkasýningu sína, Draum-Mar-Blettur.

Sýningin samanstendur af tvívíðum verkum og skúlptúrum sem unnir eru úr dýrabeinum sem Solveig safnaði í Trékyllisvík í sumar.

„Mar er hafið og byrjunin á orðinu martröð. Mara er íslensk vofa sem hangir yfir rúminu manns, svona svartur skuggi. Þetta er vísir í drauma og martraðir og förin sem þau skilja eftir. Draumar geta alveg marið mann líka, það eru ekki bara raunverulegir hlutir sem skilja eftir sig för,“ segir Solveig um nafn sýningarinnar.

„Ég er alltaf að leika mér með gráa svæðið á milli teikninga og málverka, hvenær er fyrirbærið bæði eða hvorugt,“ segir Solveig sem einnig hefur notast við grafík við vinnslu verka sinna.

Solveig er meðlimur í rapphljómsveitinni Reykjavíkurdætur og semur tónlist undir nafninu Dreprún ásamt Oddi Bárusyni.

Að opnun lokinni heldur Solveig tónleika á Loft hosteli í Bankastræti þar sem MC Bjór, Bland og eitíshljómsveitin Quest auk nokkurra meðlima Reykjavíkurdætra koma fram en tónleikarnir hefjast klukkan átta.

Sýningin Draum-Mar-Blettur verður opnuð í Gallerý Bakaríi í dag klukkan fimm.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×