Lífið

Sameina jóga og myndlistina

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Eva (Riddhi) og Erna (Siddhi) vilja miðla áfram því fallega jóga sem þeim hefur verið gefið og þær hafa lært af indverskum gúrú. Þær segja að hreint jóga sé andleg leið og við það öðlist maður þá gjöf að tengjast alheimsviskunni.
Eva (Riddhi) og Erna (Siddhi) vilja miðla áfram því fallega jóga sem þeim hefur verið gefið og þær hafa lært af indverskum gúrú. Þær segja að hreint jóga sé andleg leið og við það öðlist maður þá gjöf að tengjast alheimsviskunni. vísir/stefán
Tvíburasysturnar Eva og Erna Sigurðardætur hafa opnað Yogastudio Pooja þar sem þær sameina tvær ástríður í lífi sínu, myndlist og jóga.

„Pooja þýðir ást eða tilbeiðsla, og er tilvísun í bhakti-jóga sem er okkar sérstaða. Það er leið hjartans, leiðin heim til að tengjast eigin sál,“ segir Eva. „Við kennum fólki aðferðir til að vinna með eigin líkama, huga og egó svo öll upplifun og áhrif af jógaástunduninni nýtist í andlegu og daglegu lífi. Með því að tengjast betur hjartanu komumst við í dýpri tengsl við lífsorkuna og öðlumst dýpri tengsl við okkur sjálf, annað fólk og umhverfi.“

Systurnar eru báðar með indverskan gúrú sem þær hitta nokkrum sinnum á ári og hafa verið nemendur hans í átta ár. Hann gaf þeim þeirra andlegu nöfn, sem eru Riddhi og Siddhi. „Öll kennsla sem við ætlum að miðla byggir á því sem okkar gúrú hefur kennt okkur. Einnig munum við notfæra okkur bakgrunn okkar og þekkingu í myndlist og bjóða upp á sérnámskeið í jóga og myndlist,“ segir Erna en þær eru báðar menntaðar myndlistarmenn. „Við munum kenna myndlist í gegnum jóga og jóga í gegnum myndlist.“

Fyrir Evu og Ernu er jóga lífsstíll. „Við erum á andlegri leið og langar að miðla til annarra því fallega jóga sem okkur hefur verið gefið. Því ákváðum við að opna stúdíóið,“ segja systurnar að lokum en námskeið og opnir tímar hefjast strax eftir helgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×