Lífið

Teiknimynd unnin upp úr óperu

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Hilmar Sigurðsson er framkvæmdastjóri og annar stofnandi GunHil.
Hilmar Sigurðsson er framkvæmdastjóri og annar stofnandi GunHil. Vísir/Ernir
„Verkefnið sprettur upp úr óperu sem Barði Jóhannsson og Keren Ann Zeidel í hljómsveitinni Lady & Bird voru með í Frakklandi árið 2011 og við erum að vinna þetta með þeim,“ segir Hilmar Sigurðsson, framkvæmdastjóri og annar stofnandi GunHil.

Fyrirtækið stofnaði hann ásamt Gunnari Karlssyni og sérhæfir það sig í framleiðslu teiknimynda.

Nýjasta verkefni GunHil er teiknimyndin Red Waters. Myndin segir forna goðsögu af ánni Red Waters. Áin býr yfir lækningarmætti sem nærliggjandi þorp nýtur góðs af. Í staðinn neyðast þorpsbúar til þess að færa ánni fórnir, en eitt árið er hefðin rofin.

Í mars næstkomandi heldur fyrirtækið á Cartoon Movie 2015. „Þetta er svona evrópskur samframleiðslumarkaður. Við förum þarna með það markmið að finna okkur samstarfsfélaga og fjárfesta í Evrópu,“ segir Hilmar.

Fyrsta myndin sem Hilmar og Gunnar störfuðu saman að var teiknimyndin Litla lirfan ljóta sem kom út árið 2002. Framleiðsla á teiknimyndum tekur langan tíma en gert er ráð fyrir að Red Waters komi út árið 2019. „Það þarf alveg afskaplega mikla þolinmæði, þetta er dýrt og tekur langan tíma,“ segir Hilmar en bætir við: „En eins og allt skapandi starf þá er þetta mjög gefandi líka.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×