Lífið

Hackett heimsótti allsherjargoðann

Freyr Bjarnason skrifar
Hilmar Örn Hilmarsson og Steve Hackett hittust um síðustu helgi.
Hilmar Örn Hilmarsson og Steve Hackett hittust um síðustu helgi.
„Það er oft sem maður verður fyrir sárum vonbrigðum þegar maður hittir gamlar hetjur en það átti ekki við þarna,“ segir Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði og tónlistarmaður.

Steve Hackett, sem spilaði með Todmobile á tvennum tónleikum um síðustu helgi, nýtti tækifærið og heimsótti Hilmar Örn er hann var staddur hér á landi. Hackett er fyrrverandi gítarleikari bresku hljómsveitarinnar Genesis, sem var vígð inn í Frægðarhöll rokksins árið 2010.

„Hann og Jo, konan hans, eru mikið áhugafólk um andleg málefni. Fyrsta sólóplatan hans var einmitt byggð á tarot-spilunum, þannig að þau hafa gert sér far um að skoða helga staði hingað og þangað um heiminn. Maður getur kallað þetta andlega túrista,“ segir Hilmar Örn, sem hafði mjög gaman af heimsókninni. „Þetta er ákaflega skemmtilegt og vel upplýst fólk. Þau skoðuðu teikningar af hofinu og svo fórum við út að borða og ræddum heima og geima,“ segir hann og á við hof ásatrúarmanna. Stefnan er á að bygging þess hefjist í febrúar eða mars í Öskjuhlíð, rétt fyrir austan Nauthól.

Spurður út í trúarbrögð Hacketts og konu hans segir Hilmar Örn að Jo sé vel að sér í heiðinni grískri trú á meðan Hackett hefur lengi verið áhugamaður um vestræna trúarmenningu. „Fyrsta sólóplatan hans tekur tarot-spilin og táknfræði þeirra fyrir. Ég var einmitt að hlusta á plötu hjá honum sem er að koma út núna í mars sem er öll byggð upp í kringum forn trúar- og iðkunarkerfi,“ segir hann.

Hilmar Örn hefur lengi verið mikill aðdáandi gítarleikarans. Í byrjun níunda áratugarins þegar Hilmar var að vinna að útgáfu hljómsveitarinnar Þeys í Bretlandi hitti hann hljómborðsleikara sem starfaði með Hackett. „Þá var hann hættur í Genesis og var að byrja með sitt sólódæmi. Ég varð ágætis kunningi hans [hljómborðsleikarans], þannig að ég hef alltaf fylgst með honum leynt og ljóst.“ 

Plant var stórhrifinn af blótinu

Að sögn Hilmars Arnar hafa erlendar popp- og rokkstjörnur sem hafa haldið tónleika á Íslandi heimsótt hann af og til.

„Ég er með gamalt tengslanet frá því ég var að vinna í Bretlandi þannig að maður tengist ansi mörgum. Í gegnum árum hafa menn gjarnan leitað mig uppi. Robert Plant kom á blót hjá okkur á sumardaginn fyrsta [árið 2005] og var stórhrifinn. Hann hefur tekið þetta mjög alvarlega eins og Led Zeppelin III [þriðja plata Led Zeppelin] sýnir. Hann hefur sökkt sér í Tolkien og keltneska goðafræði og er meðlimur í fjölmörgum sögufélögum í Wales þar sem hann býr. Þar skarast líka vinahópur. Hann hefur unnið með fólki sem ég hef unnið með."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×