Innlent

Tillaga um viðræðuslit verið rædd innan þingflokks

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þórunn Egilsdóttir
Þórunn Egilsdóttir vísir/vilhelm
Tillaga ríkisstjórnarinnar um að aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið verði slitið verður lögð fram innan skamms.

„Málið hefur verið til umræðu í þingflokknum og styttist í að tillagan verði lögð fram með degi hverjum,“ segir Þórunn Egilsdóttir, nýr þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Hún segir að hún viti ekki hvenær hún verði lögð fram eða hvort þetta sé sama tillaga og lögð var fram fyrir ári.

Guðmundur Steingrímssonvísir/daníel
Tillagan var til umræðu í óundirbúnum fyrirspurnatíma á þingi í gær. Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartar framtíðar, spurði Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra út í afstöðu hans. 

Guðmundur minnti ráðherrann á að í aðdraganda kosninga töluðu allir oddvitar Sjálfstæðisflokksins um að afdrif viðræðna yrðu lögð í dóm þjóðarinnar. 

Í svari fjármálaráðherra kom fram að Ísland væri aðeins í viðræðum við ESB að nafninu til. Samningahópurinn hefði verið leystur upp og tillagan væri aðeins formsatriði. 

„Það verða mikil vonbrigði ef tillagan kemur aftur fram og í raun trúi ég því ekki fyrr en ég sé það gerast,“ segir Guðmundur. Hann segist halda í vonina um að ríkisstjórnin sjái að sér.

„Ríkisstjórnin hefur ekki umboð til að slíta viðræðunum. Ætli hún sér að ná fram viðræðuslitum verður hún að sækja það með nýjum kosningum,“ segir Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×