Lífið

Fór í prufu fyrir nýjustu mynd Luc Besson

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
María Birta segir gaman að fara í svona stórt „casting“.
María Birta segir gaman að fara í svona stórt „casting“. Vísir/AndriMarinó
„Það er nú voða lítið sem ég get sagt, en mér var boðið að koma í „casting“ fyrir nýjustu myndina hans Luc Besson og gat ekki neitað því,“ segir María Birta Bjarnadóttir, leikkona og verslunareigandi.

Besson leikstýrði og skrifaði handritið að uppáhalds kvikmynd Maríu Birtu, Léon: The Professional sem kom út árið 1994 og skartaði meðal annars Natalie Portman og Gary Oldman í aðalhlutverkum.

Prufan fór fram í gegnum internetið en algengt er að sá háttur sé hafður á í dag. „Það er alltaf voða gaman að fá að fara í svona stórt „casting“,“ segir hún en bætir við að líkurnar á að fá verkefni af þessari stærðargráðu séu um einn á móti þrjú hundruð.

„Það eru alltaf sirka þrjú hundruð stelpur sem sækja um svona verkefni, þar eru alltaf nokkrar heimsfrægar fyrir og það er líklegast að ein þeirra fái í lokin hlutverkið, en maður veit aldrei nema maður reyni, svo ég sló til.“

María Birta segist ekki velta því mikið fyrir sér hvort hún hreppi hlutverkið, hún hafi gaman af því að fara í prufur og takast á við nýjar áskoranir. „Ef það á að verða þá verður það, maður getur ekki svekkt sig á því að fá ekki eitthvað einstakt hlutverk, það koma önnur tækifæri á eftir þessu svo ég lít bara á hvert „casting“ sem æfingu fyrir það næsta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×