Tónlist

Slást við geimverur í hressu myndbandi

Freyr Bjarnason skrifar
Árni Hjörvar á bassanum með rokksveitinni The Vaccines á tónleikum í fyrra.
Árni Hjörvar á bassanum með rokksveitinni The Vaccines á tónleikum í fyrra. Vísir/Getty
Enska rokksveitin The Vaccines, með Íslendinginn Árna Hjörvar Árnason á bassanum, hefur gefið út lagið Handsome. Það er fyrsta smáskífulagið af væntanlegri plötu hljómsveitarinnar sem verður sú þriðja í röðinni.

Myndband við lagið var tekið upp í hverfinu Brooklyn í New York fyrir jólin þar sem Árni Hjörvar og félagar læra kung fu undir leiðsögn eðlu og slást svo við geimverur.

„Við vildum búa til myndband sem væri léttur óður til kvikmyndalistarinnar, sérstaklega kung fu-mynda frá Hong Kong,“ sagði söngvarinn Justin Young. „Fyrir mér er tónlist skemmtun og flótti frá raunveruleikanum. Við vildum myndband sem væri framlenging af þeirri pælingu. Við vildum búa til heim þar sem við gátum leikið metnaðarfullar og stærri útgáfur af okkur sjálfum.“

Rokkararnir eru að taka upp nýju plötuna í samvinnu við upptökustjórann Dave Fridmann, sem hefur unnið með Weezer, The Cribs og Tame Impala. The Vaccines gaf síðast út EP-plötuna Melody Calling í fyrra. Tónleikaferð um Bretland er svo fyrirhuguð í mars og apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×