Tónlist

Leit að hljóðfærunum hefur tekið tíma

Freyr Bjarnason skrifar
Roberts og Holdsworth hafa verið á tónleikaferð um Bandaríkin að undanförnu.
Roberts og Holdsworth hafa verið á tónleikaferð um Bandaríkin að undanförnu.
„Það hefur tekið sinn tíma að safna saman öllum hljóðfærunum sem þeir munu nota,“ segir Guðbjartur Finnbjörnsson. Hann skipuleggur tónleikana Tubular Bells fyrir tvo sem verða haldnir í Háskólabíói í kvöld.

Þar spila Ástralarnir Aidan Roberts og Daniel Holdsworth lög af frægri plötu Mikes Oldfield, Tubular Bells, og verða aðeins tveir á sviðinu. Hljóðfærin verða aftur á móti 38 talsins. Tónleikarnir eru haldnir í tilefni 40 ára afmælis plötunnar, sem var í fyrra.

Að sögn Guðbjarts verða tvö trommusett á sviðinu, auk allra hinna hljóðfæranna. Fyrirtækið HljóðX hefur safnað hljóðfærunum saman fyrir tónleikana og m.a. fékk það „tubular bells“ að láni hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Tubular Bells kom út árið 1973 og er fyrsta plata enska tónlistarmannsins Mikes Oldfield. Hún sat á breska vinsældalistanum í 279 vikur samfleytt og er sú fyrsta sem Virgin Records, fyrirtæki auðjöfursins Richards Branson, gaf út.

Roberts og Holdsworth hafa hlotið mikið lof fyrir tónleika sína úti um allan heim. Þeir eru á sinni fyrstu tónleikaferð um Bandaríkin og munu ljúka ferðalaginu hér á landi. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×