Lífið

Hér er mikið sungið

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Sjúkraliðarnir Ingibjörg Lóa Ármannsdóttir, Helga Guðmundsdóttir, Guðrún Lóa Jónsdóttir, ásamt Guðrúnu Viggósdóttur, deildarstjóra sambýlis, og Ídu Atladóttur forstöðumanni. Allar hafa starfað í Roðasölum í tíu ár nema Ída.
Sjúkraliðarnir Ingibjörg Lóa Ármannsdóttir, Helga Guðmundsdóttir, Guðrún Lóa Jónsdóttir, ásamt Guðrúnu Viggósdóttur, deildarstjóra sambýlis, og Ídu Atladóttur forstöðumanni. Allar hafa starfað í Roðasölum í tíu ár nema Ída.
„Við reynum að hafa Roðasali sem líkasta venjulegu heimili, meðal annars með því að elda heimilismat og hafa allt yfirbragð aðlaðandi,“ segir Ída Atladóttir, forstöðumaður hjúkrunarheimilisins Roðasala í Kópavogi.

Heimilið var opnað 19. janúar 2005 og tíu ára afmælinu var fagnað í vikunni. Ída kveðst hafa verið þar í átta ár, hún er hjúkrunarfræðingur með meistaragráðu í öldrunarhjúkrun.

Í Roðasölum búa tíu einstaklingar sem glíma við minnistap á fyrri stigum, auk þess sem tuttugu eru þar í dagþjálfun og eitt hvíldarinnlagnarpláss er fyrir hendi.

Ída segir áherslu lagða á tómstundastarf og líkamsþjálfun ásamt því að virkja fólk eins og hægt er til þátttöku í daglegum verkum á heimilinu.

Lykilatriði sé að skapa umhverfi sem uppfylli mannlegar þarfir, tryggi góðan svefn, næringu og gott atlæti á allan hátt auk þess að viðhalda félagslífi.

„Hér er til dæmis mikið sungið og hingað kemur harmóníkuleikari einu sinni í viku til að spila fyrir dansi. Stundum koma leikskólabörn í heimsóknir og prestar og starfsmenn Rauða krossins koma reglulega og halda uppi dagskrá.Svo styttist í þorrablótið og öðru hvoru höfum við kaffiboð fyrir aðstandendur.“

Um 30 starfsmenn eru í Roðasölum, fimm þeirra hafa starfað þar frá upphafi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×