Tónlist

Herbragðið skilaði tilætluðum árangri

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Vulnicura svona lítur plötuumslag nýjustu plötu bjarkar út.
Vulnicura svona lítur plötuumslag nýjustu plötu bjarkar út.
„Þarna var verið að bregðast við þeim aðstæðum sem voru komnar upp. Þetta er í raun í fyrsta sinn sem leki er tæklaður á þennan hátt,“ segir Ásmundur Jónsson hjá Smekkleysu en áttunda plata Bjarkar Guðmundsdóttur, Vulnicura, kom út á iTunes í gær eftir að henni var lekið á netið. Upphaflega átti platan að koma út í mars.

Herbragðið virðist hafa heppnast því platan skaust á toppinn víða um heim samkvæmt vefsíðum sem byggja á rauntímaupplýsingum frá iTunes. Meðal landa þar sem platan skaust á toppinn má nefna Bretland, Mexíkó, Holland, Pólland og Rússland. Að auki var hún í öðru sæti hjá Þjóðverjum og Frökkum og í fjórða sæti í Bandaríkjunum.

Ásmundur Jónsson, útgáfustjóri Smekkleysu.
„Það að bregðast við leka á þennan hátt er mjög óvenjulegt og ég efast um að það hafi verið reynt áður,“ segir Ásmundur. Um leið og tónlistin sé komin á netið byrji aðdáendur að deila henni sín á milli og séu flestir búnir að hlusta á plötuna aftur á bak og áfram áður en hún kemur loks út.

Björk greindi frá tíðindunum á heimasíðu sinni. Þar segir hún meðal annars að platan hafi í fyrstu einkennst af ástarsorg, hluti hennar sé saminn fyrir skilnað og hluti skömmu eftir. Hún vonast til að lögin geti hjálpað fólki sem stendur í þeim sporum. Tónlistarmennirnir Arca og The Haxan Cloak aðstoðuðu Björk við gerð plötunnar. 

Í viðtali við tónlistartímaritið Pitchfork segir Björk að hún hafi verið stressuð fyrir plötunni. Á síðustu plötu, Biophilia, hafi hún samið um alheiminn en Vulnicura sé talsvert venjulegri. Um tíma hafi hún óttast að hún yrði of fyrirsjáanleg og leiðinleg.

Þrátt fyrir að stutt sé síðan platan kom út hafa gagnrýnendur tímarita og blaða víða um heim keppst um að hlaða plötuna lofi. Alexis Petredis, blaðamaður The Guardian, segir að Vulnicura sé mikilvægasta plata Bjarkar síðan Vespertine kom út árið 2001. Starfsbræður hans víða um heim taka í sama streng.

Ásmundur gerir ráð fyrir því að plötunni verði fylgt eftir með fjölda tónleika. Nú þegar hefur verið tilkynnt um sjö tónleika sem munu fara fram í New York.

Hann er ánægður með viðtökurnar sem platan hefur fengið en skilur lítið í þeim sem leka verkum annarra.

„Gerð plötunnar tók mörg ár og það hljóta að liggja einhverjar annarlegar hvatir að baki hjá fólki sem gerir svona.“


Tengdar fréttir

Nýjustu plötu Bjarkar lekið á netið

Nýjasta platan frá Björk, Vulnicura, kemur út í mars en fram kemur í erlendum miðlum að plötunni hafi nú þegar verið lekið á netið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.