Lífið

Semja tónlist um matargerð

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hljómsveitin er með eindæmum þjóðleg.
Hljómsveitin er með eindæmum þjóðleg. Vísir/Stefán
Það sem úti frýs er glæný hafnfirsk hljómsveit. Fyrsta lag hennar, Haltu kjafti, kemur út í dag, á bóndadaginn, sem jafnframt er fyrsti dagur þorra.

„Okkur hefur þótt vanta talsvert upp á hressileg þorralög sem hægt er að syngja með og skemmta sér,“ segir Heiðar Örn Kristjánsson, oft kenndur við Botnleðju og Pollapönk, en hann syngur með sveitinni. „Lagið heitir Haltu kjafti og fjallar um svið.“

Með Heiðari í sveitinni eru gítarleikararnir Þröstur Harðarson og Magnús Leifur Sveinsson og bassaleikarinn Viðar Hrafn Steingrímsson. Þórhallur Stefánsson í Lights on the Highway og STÓNS lemur húðir.

„Stefnan er sett á að gefa út sannkallaðan matardisk í haust,“ segir Heiðar. Með matardisk á hann við að konseptplata sé á leiðinni. Haltu kjafti sé í raun fyrsta smáskífa þeirrar plötu.

Samkvæmt Heiðari verður rótgrónum íslenskum mat gert hátt undir höfði á plötunni. Nefnir hann þar til sögunnar rétti á borð við hakkabuff, kjötsúpu og svið.

„Hugmyndin er sú að við syngjum um aðferðafræðina og uppskriftirnar fylgja með plötunni. Á þann veg getur fólk hlustað á plötuna, fylgt uppskriftinni og matreitt lögin okkar hvert á sinn hátt,“ segir Heiðar og hlær.

Upptökur á laginu fóru fram í stúdíóinu Aldingarði sem meðlimirnir Magnús og Þórhallur eiga og Heiðar segir það, ásamt Hafnarfirði, vera bækistöðvar hljómsveitarinnar.

Aðspurður segir hann að enn sé ekki komið á hreint hvernig tónleikahaldi verður háttað. Hljómsveitin sé enn svo ný en það ætti að skýrast á næstu vikum og þegar nær dregur plötunni.

Hægt er að nálgast lagið á vefnum Tonlist.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×