Handbolti

Wilbæk: Gummi fær sinn tíma með liðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Katar skrifar
Fyrir HM í Katar gengu margir svo langt að spá Dönum heimsmeistaratitlinum enda liðið ógnarsterkt með frábæra leikmenn í hverri einustu stöðu. Liðið hefur þar að auki farið í úrslit á fjórum stórmótum í röð. Liðið hikstaði í upphafi móts en virðist nú komið í gang, þrátt fyrir að Danir þurfi að sætta sig við að hafa ekki landað toppsæti D-riðils keppninnar í Katar.

Lykilmaður í uppgangi danska landsliðsins síðasta áratuginn eða svo er Ulrik Wilbæk. Hann hætti sem landsliðsþjálfari eftir níu ára starf í fyrra og var Guðmundur Guðmundsson, fyrrverandi þjálfari íslenska landsliðsins, ráðinn í hans stað sem kunnugt er.

Allir þeir Danir sem ofanritaður hefur rætt við hér í Katar eru sammála um eitt – að það yrði erfitt fyrir hvern sem er að fylgja í fótspor Wilbæk, enda goðsögn í dönskum handbolta.

Guðmundur fær nú það hlutverk og Wilbæk hefur ekki áhyggjur.

Er rólegur í stúkunni

„Þetta var sérstakur leikur [gegn Argentínu í fyrstu umferð riðlakeppninnar]. Við vorum lengst af í forystu en stundum gerist svona lagað í handbolta. Það er mikil pressa sem fylgir þessari stöðu og ef til vill get ég hjálpað honum hvað mest að því leyti,“ sagði Wilbæk í samtali við Fréttablaðið eftir blaðamannafund danska liðsins á dögunum.

Á fundinum sat Guðmundur fyrir svörum hinnar fjölmennu fjölmiðlasveitar Dananna. Wilbæk sat í öfustu röð í salnum og hlýddi hljóður á.

„Mér líður vel í þessu nýja hlutverki og það fer vel um mig á aftasta bekk,“ segir hann brosandi. „Mitt hlutverk er nú að styðja við Guðmund og hans fólk og ég reyni að sinna því af bestu getu,“ bætir hann við en Wilbæk gegnir nú stöðu íþróttastjóra hjá danska handknattleikssambandinu.

Wilbæk var líflegur á hliðarlínunni – rétt eins og Guðmundur hefur alltaf verið – en hann á ekki í erfiðleikum með að hemja sig uppi í stúku. „Það er ekkert mál. Ég er róleg persóna nema þegar ég stend á hliðarlínunni.“

Mikil áhrif á feril minn

Markvörðurinn Niklas Landin er lykilmaður í liði Dana enda einn allra besti markvörður heims – ef ekki sá besti. Hann og Guðmundur hafa starfað lengi saman.

„Ég á virkilega gott samband við Gumma. Ég var 19-20 ára gamall þegar hann gaf mér tækifæri í GOG Gudme og svo 22 ára þegar hann gaf mér tækifæri í þýsku úrvalsdeildinni með Rhein-Neckar Löwen. Hann hefur haft mikil áhrif á feril minn,“ segir hann.

„Mestu máli skiptir að hann hefur gefið mér mínútur inni á vellinum. Þar að auki ræðum við alltaf mjög mikið saman, bæði fyrir leiki og eftir þá. Ég myndi segja að við þekkjumst virkilega vel.“

Hann segir að það sé ekki mikill munur á því að hafa Guðmund sem félagsliðsþjálfara og landsliðsþjálfara. „Hann vinnur næstum eins í báðum stöðum. Æfingarnar eru eins og undirbúningurinn líka,“ segir Landin sem er enn á mála hjá Rhein-Neckar Löwen en Guðmundur hætti þar í vor til að einbeita sér að danska landsliðinu.

„Já, ég sakna hans aðeins. En ég er nú með danskan þjálfara [Nikolaj Bredahl Jacobsen] sem er heldur ekki slæmt.“

Vinna réttu leikina

Wilbæk segist sannfærður um að Guðmundur fái tíma til að komast almennilega á skrið með danska landsliðið.

„Ég hef engar áhyggjur og Guðmundur fær sinn tíma með liðinu. Það er enn nóg eftir af HM. Eftir að núverandi fyrirkomulag með 16- og 8-liða úrslitum var tekið upp vita öll liðin að þetta snýst um að vinna réttu leikina – ekki endilega alla.“



Ekki missa af neinu sem gerist á HM. Fylgdu Vísi á Twitter, Facebook og Snapchat (notendanafn: sport365).


Tengdar fréttir

Nyegaard: Guðmundur á eftir að höndla pressuna

Íslandsvinurinn Bent Nyegaard er sérfræðingur TV2 sjónvarpsstöðvarinnar. Hann þjálfaði bæði Fram og ÍR á sínum tíma. Hann segir pressuna á Guðmund Guðmundsson gríðarlega mikla. Íslenska landsliðið er í hópi 8-10 bestu í heimi að hans mati.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×