Lífið

Ekki keypt hveiti né sykur í tvö ár

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Hafdís segir mikinn heiður að vera tilnefnd til Gourmand-verðlaunanna.
Hafdís segir mikinn heiður að vera tilnefnd til Gourmand-verðlaunanna. Vísir/Valli
„Þetta er mikill heiður og bókin keppir í sama flokki í Kína í sumar,“ segir Hafdís Priscilla Magnúsdóttir, en bók hennar, Dísukökur hlaut tilnefningu til Gourmand-verðlaunanna fyrir Íslands hönd í flokknum sætindi og eftirréttir.

Gourmand-verðlaunin eru alþjóðleg bókaverðlaun á sviði matar- og vínbóka.

Í bók Hafdísar má finna uppskriftir að kökum og eftirréttum án sykurs og hveitis en Hafdís hefur að mestu sneitt hjá þessum vörum síðastliðin tvö ár.

„Þetta byrjaði sem áhugamál fyrir tveimur árum og vatt upp á sig. Ég fór að blogga og birta uppskriftir, svo var haft samband við mig og mér boðið að gera bók. Maður segir ekki nei við svoleiðis tækifæri,“ segir Hafdís glöð í bragði.

Hún segir þó að hún leyfi sér stundum sykruð sætindi. „Maður leyfir sér stundum en það hefur ekki verið keypt hveiti eða sykur inn á mitt heimili í tvö ár.“

Hafdís hefur ekki setið auðum höndum eftir útgáfu bókarinnar og hefur gefið út tvær rafbækur á síðustu mánuðum.

„Ég er rosalega mikið að gefa út rafbækur sjálf og fólk er hrifið af því. Ég gaf Sykurlaus jól út í desember og svo eina núna í janúar.“

Bækurnar gefur hún út á netinu og sér um uppsetningu og umbrot sjálf. „Það er ekki alveg eins mikil vinna að gefa út rafbók og fólk getur keypt þetta á hagstæðara verði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.