Handbolti

Sigurbjörgu líður betur - Fer til læknis á fimmtudaginn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sigurbjörg hefur spilað mjög vel fyrir Fram.
Sigurbjörg hefur spilað mjög vel fyrir Fram. vísir/Valli
Sigurbjörg Jóhannsdóttir, leikstjórnandi Fram í Olís-deild kvenna í handbolta, meiddist í fyrri hálfleik í leik liðsins gegn ÍBV á laugardaginn eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær. Eftir að hún reyndi við skot að marki ÍBV meiddist hún á hné og þurfti að fara af velli.

„Ég var í uppstökki í gær (fyrradag) og það kom snúningur eða slinkur á hnéð og eitthvað gaf sig,“ sagði Sigurbjörg við Fréttablaðið á sunndaginn.

Þegar blaðið ræddi við Sigurbjörgu í gær kvaðst hún hafa það ágætt en það væri vissulega vegna þess að engin áreynsla væri á hnénu.

„Mér líður alveg bærilega en ég er líka bara frekar róleg og er að hvíla mig. Þá er ég ekki með mikla verki,“ segir Sigurbjörg sem hefur ekki tilfinningu fyrir því hvort krossbandið sé slitið eins og óttast var.

„Ég held í vonina um að þetta sé ekki eins alvarlegt og maður óttast. Ég vona bara að þetta sé ekki jafn alvarlegt og ég geti náð mér á skemmri tíma,“ segir þessi frábæri leikstjórnandi, en hún fær ekki að vita hvað amar að fyrr en undir lok vikunnar.

„Ég fæ tíma hjá lækni á fimmtudaginn og vonandi myndatöku í kjölfarið. Þá fæ ég að vita hversu alvarlegt þetta er,“ segir Sigurbjörg við Fréttablaðið.

Það er ljóst að hún verður ekki með Fram þegar liðið mætir HK næsta laugardag, en það yrði mikið áfall fyrir Safamýrarstúlkur að missa Sigurbjörgu í langvarandi meiðsli. Hún hefur verið besti leikmaður deildarinnar til þessa og var kjörin sá besti þegar fyrri helmingurinn deildarinnar var gerður upp fyrir áramót.

Fyrir utan það að stýra leik Framliðsins hefur hún verið drjúg í markaskorun og er næstmarkahæst í liðinu með 72 mörk, aðeins fimm mörkum minna en ungstirnið Ragnheiður Júlíusdóttir.

Fram er í öðru sæti Olís-deildarinnar, aðeins stigi á eftir toppliði Gróttu sem gerði óvænt jafntefli við Fylki um helgina.


Tengdar fréttir

Sigurbjörg gæti verið með slitið krossband

Sigurbjörg Jóhannsdóttir, leikstjórnandi toppliðs Fram í Olís-deild kvenna í handbolta, meiddist á hné í sigurleik í Eyjum um helgina og er óttast að krossbandið sé slitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×