Skoðun

Hin leyndardómsfullu skattaskjól

Örn Gunnlaugsson skrifar
Skattrannsóknarstjóri hefur undanfarið verið áberandi í fjölmiðlum vegna stolinna gagna sem hann hyggst kaupa að utan og geta hugsanlega upplýst um skattsvikara sem geyma fé í skattaskjólum þar. Svona fregnir fylla mann bjartsýni á að raunverulega eigi nú að virkja skatteftirlit í landinu þannig að ekki bara sumir heldur allir standi skil til samfélagsins á því sem þeim ber.

Það vekur hins vegar furðu að skattyfirvöld í landinu skuli ekki sjá skóginn fyrir trjánum í þessum efnum og hefja vinnslu á þeim gögnum sem fyrir liggja á heimavelli áður en farið er að æða til útlanda í leit að skattsvikurum. Embættismenn ríkisins, þ.m.t. þeir sem eiga að fylgja eftir skatteftirliti, búa ásamt öðrum að gríðarlegu skattaskjóli innanlands. Hér er um að ræða dagpeningagreiðslur vegna ferða á vegum vinnuveitenda en heimilt er að færa kostnað á móti þeim undan tekjuskattstofni að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og að ákveðnu hámarki sem nemur tugum þúsunda fyrir hvern ferðadag.

Meðal skilyrða er að um sé að ræða tilfallandi ferð utan venjulegs vinnustaðar og að um sé að ræða kostnað sem sannanlega er vegna ferða á vegum vinnuveitanda. Þrátt fyrir þetta líða skattyfirvöld að þeir aðilar sem njóta færi í flestum tilfellum hámarksfjárhæð til frádráttar án þess að hafa orðið fyrir kostnaði nema að litlu eða engu leyti og njóta því skattfrelsis á þessar greiðslur. Í raun er rangt að kalla þetta skattfrelsi því hér er auðvitað um að ræða undanskot í víðasta skilningi þó þau séu stunduð með vitund og blessun skattyfirvalda. Nú hafa skattyfirvöld hnykkt á reglum um þessa hluti og gera þeim einum sem stunda eigin atvinnurekstur að skila inn gögnum í samræmi við frádrátt.

Hvers vegna aðilar eru dregnir í dilka hvað þetta varðar liggur í augum uppi – sumir eiga að komast upp með það sem öðrum er ekki ætlað og þar hugsa þessir aðilar fyrst og fremst til eigin hagsmuna. Það þarf ekki margar háskólagráður til að sjá hvers vegna þessi skattsvik eru látin átölulaus í ljósi þess hverjir njóta og af hverjum sá samtryggingarhópur sem þeir tilheyra samanstendur. Flugliðar í millilandaflugi njóta þess einnig að fá að stunda þessi skattsvik jafnvel þó ferðir þeirra séu ekki tilfallandi utan venjulegs vinnustaðar sem hlýtur eðli málsins samkvæmt að vera flugfarið sjálft.

Ekki traustvekjandi

Er ekki tímabært að skattyfirvöld uppræti hin leyndardómsfullu skattaskjól innanlands jafnframt þeirri útrás sem nú liggur fyrir? Þingmenn hafa almennt engan áhuga á að beita sér fyrir breytingum á núverandi fyrirkomulagi enda heggur það í þeirra eigin hagsmuni. Ég átti samtal við formann efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um skattaskjól í útlöndum fyrir nokkru en áhugi hans á upprætingu skattsvika dó algjörlega þegar samtalið fór inn á hin innlendu skattaskjól.

En verði hin stolnu gögn keypt frá útlöndum, hver á þá að hafa eftirlit með að skattyfirvöld grisji ekki úr þeim aðila sem þeim er þóknanlegt að sleppi undan rannsókn? Skattyfirvöld hafa sýnt í verki að þeim er ekki treystandi til að opna slíkar upplýsingar án eftirlits frá almennum þegnum sem valdir yrðu handahófskennt úr Þjóðskrá. Það er ekki beint traustvekjandi að láta ríkisskattstjóra eða skattrannsóknarstjóra eina um að opna þessi gögn í einrúmi í ljósi þess hvernig þessir aðilar hafa liðið elítunni í landinu að svíkja undan í gegnum dagpeningagreiðslur gegnum tíðina. Hvernig hafa æðstu embættismenn skattyfirvalda talið fram þær dagpeningagreiðslur sem þeir hafa notið? Hafa þeir fært undan tekjuskattstofni meira en sannanlega er kostnaður, jafnvel hámarksfjárhæð án heimilda? Er ekki rétt að þessir aðilar taki ærlega til í eigin ranni áður en þeir flengjast til útlanda á skattsviknum dagpeningum til að elta uppi aðra skattsvikara?




Skoðun

Sjá meira


×