Hljómsveitin er nú stödd í Los Angeles þar sem verið er að leggja lokahönd á nýja plötu og hefur bandaríski upptökustjórinn Rich Costey aðstoðað sveitina við gerð plötunnar. Costey hefur áður unnið með þekktum hljómsveitum á borð við Muse, Interpol og Death Cab for Cutie.
„OMAM fer í tónleikaferð í vor en við gerum ráð fyrir að platan komi út í vor eða snemma í sumar,“ segir Heather, spurð út í plötuútgáfuna og fyrirhugað tónleikahald.
Á Facebook-síðu sveitarinnar hafa nokkrar tónleikadagsetningar verið staðfestar og ber þar hæst að nefna Southside-hátíðina og Hurricane-hátíðina í Þýskalandi, Hilvarenbeek-hátíðina í Hollandi, Unaltrofestival á Ítalíu, Sasquatch!-hátíðina í Bandaríkjunum og Fuji Rock Festival í Japan svo nokkrir tónleikar séu nefndir.
Heather gat ekki tjáð sig frekar um tónleikahald sveitarinnar að svo stöddu. „Ég get þó sagt að margir fleiri tónleikar verða tilkynntir á næstunni, fólk þarf bara að fylgjast með.“