Lífið

Seldi bílinn 100 ára og keypti sér skutlu

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Lárus er enn nokkuð hress þrátt fyrir háan aldur.
Lárus er enn nokkuð hress þrátt fyrir háan aldur. Vísir/GVA
Lárus Sigfússon, fyrrverandi ráðherrabílstjóri, fagnaði 100 ára afmæli sínu þann 5. febrúar. Hann starfaði sem ráðherrabílstjóri í alls tuttugu og eitt ár, lengst af fyrir Steingrím Hermannsson. Lárus hætti alfarið að keyra í nóvember í fyrra, rétt fyrir aldarafmælið, og fékk sér rafmagnsskutlu sem hann hyggst keyra þegar snjóa leysir.

„Hún jafnast nú ekkert á við bílinn,“ segir Lárus hress, en síðasti bíll sem hann átti var Hyundai Galloper. Lárus hefur átt mikinn fjölda bifreiða yfir ævina, en auk þess að keyra ráðherrabifreiðar var Lárus leigubílstjóri lengi vel. „Ég fékk þær upplýsingar frá tryggingafélaginu mínu um daginn að ég hef átt hátt í tvö hundruð bíla á áttatíu árum og þann fyrsta tryggði ég hjá Samvinnutryggingum,“ segir hann.

Guðni Ágústsson afhendi Lárusi ostakörfu í tilefni afmælisins. Með þeim á myndinni er Kristín kona Lárusar.Vísir/GVA
Fyrsta bílinn eignaðist Lárus árið 1933 en það var Ford-vörubíll. Bíllinn var notaður til að flytja steypuefni þegar Lárus vann að stækkun Reykjaskóla í Hrútafirði. „Mér leist svo vel á bílinn að ég ákvað bara að kaupa hann,“ segir hann.

Lárus hætti að keyra fyrir ráðuneytin 73 ára og síðustu árin vann hann skrifstofustarf í ráðuneytinu. „Ég var að ljósrita og raða skjölum fyrir næsta ríkisstjórnarfund, það mátti aldrei neitt vanta á fundina.“

Aðspurður hvort eitthvert atvik standi upp úr í starfi hans sem ráðherrabílstjóri segist hann ekki muna eftir neinu einu. „Þetta var bara mjög skemmtilegt starf og allt indælismenn, hver öðrum betri að vinna með. Oft var ég nú beðinn um að keyra aðra ráðherra þegar ekki var annar bílstjóri við höndina. Þetta var bara eins og eitt heimili og allir hjálpuðust að,“ bætir hann við. 

Lárus segir ráðherrabílana hafa verið marga og mismunandi. „Ég man nú ekki allar tegundirnar, sumir voru á jeppum og aðrir fólksbílum. En ég hef alltaf verið hrifinn af Chevrolet,“ segir hann og hlær. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.