Íslenski boltinn

Formannsframbjóðanda ekki boðið í matarveislu KSÍ

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jónas Ýmir Jónasson.
Jónas Ýmir Jónasson. fréttablaðið/andri marinó
Jónas Ýmir Jónasson reið ekki feitum hesti frá formannsframboði sínu á ársþingi KSÍ en hann tapaði 111-9 fyrir Geir Þorsteinssyni.

„Ég veit hvaðan fjögur atkvæði komu en veit ekki meira. Ég er bara þakklátur fyrir þann stuðning sem ég fékk. Ég hefði samt viljað sjá fleiri sýna hugrekki og kjósa breytingar,“ segir Jónas en hann segir ekki marga hafa gefið sig á tal við hann á þinginu. Honum leið eins og hann væri óvelkominn.

„Svo var mér ekki einu sinni boðið í matinn eftir þingið. Allir þingfulltrúar mættu í matarboð en mér var ekki boðið. Það kom ekki til greina að biðja um að fá að koma. Ég fór því bara heim.“

FH-ingurinn er mest ánægður að hafa náð vekja upp umræðu hjá KSÍ.

„Ég náði aðeins að hrista upp í þessu. Það líta allir á KSÍ sem klíku hvort sem sambandið er það eða ekki. Ég kom með nýjar hugmyndir og ýtti aðeins við þeim. Ég held að þeir hafi verið hundfúlir með þetta,“ segir Jónas en Geir sagði í viðtali á Stöð 2 eftir þingið að hann hefði ekki hugmynd um hver Jónas væri.

„Það var bara eins og símtalið frá framkvæmdastjóranum sem spurði hvort framboðið mitt væri grín. Mér finnst þetta vera vanvirðing.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×